Bókaútgefandi Huginn Þór Grétarsson er stoltur af bókunum sínum.
Bókaútgefandi Huginn Þór Grétarsson er stoltur af bókunum sínum. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Huginn Þór Grétarsson hefur gefið út fjöldan allan af barnabókum og stofnaði sína eigin bókaútgáfu, Óðinsauga. Nýjasta bókin hans er á fjórum tungumálum.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég var í meistaranámi í fjármála- og fyrirtækjastjórnun úti í Svíþjóð þegar hrunið varð 2008. Þegar ég flutti heim langaði mig ekkert inni þennan viðskiptageira aftur, en ég hafði meðal annars unnið sem verðbréfamiðlari. Ég er að reyna að búa mér til vinnu með þessari bókaútgáfu, en listaheimurinn er vissulega svolítið erfiður. Þetta gengur samt þokkalega núorðið,“ segir Huginn Þór Grétarsson bókaútgefandi, viðskiptafræðingur og rithöfundur, en hann stofnaði fyrir nokkrum árum bókaútgáfuna Óðinsauga, þar sem boðið er upp á útgáfu eftir þörfum hvers og eins. „Það er hægt að velja nokkrar útgáfuleiðir, fólk getur valið hversu mikið það sér um sjálft og hversu mikið það vill að ég sjái um, hvort sem það er prentun, dreifing eða annað. Ég get aðstoðað fólk og notað tengslin sem ég er með úti. Hugmyndin með Óðinsauga-útgáfunni er að margir taki þátt og hjálpist að, það er nýstárlegt í bókaútgáfu.“

Þurfa að vera skemmtilegar

Huginn hefur verið afkastamikill við að skrifa barnabækur og gefa þær út. Sú nýjasta heitir Fjörugt ímyndunarafl á fjórum tungumálum. Bókin er á íslensku norsku, dönsku og ensku, og hana er þannig bæði hægt að lesa á ylhýru móðurmálinu eins og hverja aðra barnabók eða nota sem kennslubók. Börn og jafnvel fullorðnir geta með bókinni lært ný tungumál.

„Hugmyndin að þessari bók kom út frá því að ég heyrði af því í ferðum mínum í bókabúðum að fólk væri að biðja um bækur fyrir börn á Norðurlandamálum, sérstaklega á norsku. Íslendingar hafa jú margir verið að flytja til Norðurlandanna undanfarið. Ég bjó sjálfur í Danmörku um tíma og þekki hvernig það er að tileinka sér nýtt tungumál og þá er gott að hafa stuðningsrit. En svona bækur verða að vera skemmtilegar, það skiptir miklu máli,“ segir Huginn og bætir við að hann hafi fengið styrk frá Nordplus tungumálaáætluninni til að gera bókina og bæði Noregur og Færeyjar hafi sýnt því mikinn áhuga að gefa bókina út, en vissulega þyrfti hann að bæta færeyskunni við í færeysku útgáfunni. „Ég er að vinna annað verkefni sem verður framhaldsbók af þessari og ætluð fyrir eldri krakka, það verða lengri sögur og meiri texti. Þá sögu ætla ég að byggja á vættum og þjóðtrú Íslands, Noregs, Danmerkur.“

Vill vekja til umhugsunar

Eftir Huginn hafa komið út fjölmargar barnabækur, ýmist frumsamdar eða sem hann hefur þýtt. „Þrettán þrautir jólasveinanna er ein þeirra bóka sem ég er með í almennri dreifingu núna og svo þýddi ég Sígildu ævintýrin, sem er stór og vegleg bók og hefur selst gríðarlega vel. Eldingaþjófurinn er þýdd bók sem er stóra bókin þessi jólin, það er framhaldssaga fyrir börn og þekkt um víða veröld.“

Huginn neitar því ekki að það geti verið ákveðin glíma að flétta saman boðskap og skemmtun í bókum fyrir börn. „Margar þeirra bóka sem ég hef samið eru með boðskap, eins og til dæmis bókin Kýrin sem kunni ekki að baula, í henni er mikill texti og mikill boðskapur. Ég held reyndar að börn hafi gott af því að við ýtum þeim út í meiri lestur og meiri pælingar. Ég vil vekja fólk til umhugsunar með bókunum mínum. Barnabækur þurfa ekki alltaf að vera með léttum stuttum texta og miklum myndum, þó svo þær séu ætlaðar fyrir krakka sem eru fjögurra til fimm ára.“

Hefur svo gaman af þessu

Huginn hefur líka verið með fyrirtækjaþjónustu og hann vann meðal annars stórt verkefni fyrir Iceland Express. „Ég vann fyrir þá barnabók til að bjóða börnum í flugi. Þessi bók er um Skoppu og Skrítlu og er allt í senn, saga, þrautir og litabók. Í henni er ljósmyndum og myndskreytingum blandað saman. Ég hef líka verið með þessa fyrirtækjaþjónustu fyrir Dominos og American Style. Sem betur fer er veltan alltaf að aukast hjá Óðinsauga, enda er ég að reyna að gera þetta að atvinnu. Ég hef svo gaman af þessu.“