Flugfélagið Fargjald mun hækka.
Flugfélagið Fargjald mun hækka.
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Fargjöld í innanlandsflugi hækka og rekstur Flugfélags Íslands verður erfiður þegar hækkanir á lendingar- og farþegagjöldum á Reykjavíkurflugvelli verða að veruleika á næsta ári.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Fargjöld í innanlandsflugi hækka og rekstur Flugfélags Íslands verður erfiður þegar hækkanir á lendingar- og farþegagjöldum á Reykjavíkurflugvelli verða að veruleika á næsta ári. Þetta segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

Hækkanirnar nema 250 milljónum, þær eru samkvæmt samgönguáætlun til næstu fjögurra ára og eiga að koma til framkvæmda í tveimur jafnstórum áföngum 2012 og 2013. Þetta verður nýtt í framkvæmdir og viðhald.

Árni segir gjaldahækkunina ekki hafa verið kynnta forsvarsmönnum flugfélagsins. Hann segist hafa átt von á einhverjum hækkunum um áramótin, en að þær yrðu nokkru minni. „Við lásum í samgönguáætluninni að okkur ber að borga 250 milljónum meira til hins opinbera. Þetta mun augljóslega hafa áhrif á fargjöldin til hækkunar, það er alveg ljóst. Það er ekkert óeðlilegt við að gjöld hækki í samræmi við verðlag og annað slíkt. En að hækkunin yrði í þessum stærðarflokki; því áttum við engan veginn von á. Þetta verða 125 milljónir á næsta ári og hefur veruleg áhrif á reksturinn.“

Margvísleg gjöld lögð á félagið

Að sögn Árna hafa ýmis gjöld verið lögð á félagið undanfarin ár. Erfitt sé að sjá hversu lengi það geti haldið áfram. „Það er verið að tvískatta okkur vegna kolefnisblásturs; bæði vegna útblásturs á eldsneyti sem við greiðum til ríksins og frá janúar 2012 þurfum við að borga samkvæmt evrópsku kerfi, ETS. Síðan hafa bæði lendingar- og farþegagjöld hækkað á okkur og skattar á eldsneyti og eldsneytisverðið sjálft hefur hækkað.“ Árni segir takmörk fyrir því hvað markaðurinn geti þolað í verðhækkunum. „Þetta fer beint út í verðið. Ef það verður of hátt, þá fáum við miklu færri farþega. Það má heldur ekki gleyma að þetta hefur mikil áhrif á búsetu og verslun á landsbyggðinni.“

Margir þættir hafa áhrif á fargjöld, að sögn Árna. „Allir kostnaðarliðir hafa áhrif á verðmyndunina; rekstrarkostnaður, eldsneyti, viðhald og opinber gjöld, svo eitthvað sé nefnt.“

Undanfarin tíu ár, eða þar um bil, hefur félagið verið rekið án taps. „Þetta hefur verið gríðarlega erfitt, sérstaklega undanfarin þrjú ár í kjölfar hrunsins. Farþegum fækkaði verulega árin 2009 og 2010, en í ár hefur verið hæg aukning. En maður sér ekki fram á að það muni halda áfram ef kostnaður eykst svona mikið,“ segir Árni. 18

FLUGFÉLAG ÍSLANDS

Réttum megin við núllið

„Okkur hefur tekist að halda okkur réttum megin við núllið, en ekkert meira en svo, undanfarin tíu ár. Þá gerðum við verulegar breytingar á rekstrinum,“ segir Árni. „Við tókum út nokkrar leiðir sem voru ekki að bera sig og gerðum breytingar á söluferlinu, tókum upp netið sem helsta sölutæki og höfum hagrætt gríðarlega í rekstrinum.“