Maraþon Kári Steinn Karlsson var fljótur að ná lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í London og keppir fyrstur íslenskra karla í greininni á leikunum næsta sumar.
Maraþon Kári Steinn Karlsson var fljótur að ná lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í London og keppir fyrstur íslenskra karla í greininni á leikunum næsta sumar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
AFREKSMÁL Ívar Benediktsson iben@mbl.is Langhlauparinn Kári Steinn Karlsson úr Breiðabliki tryggði sér í haust farseðilinn til þátttöku á Ólympíuleikunum sem fram fara í London á komandi sumri þegar hann hljóp undir lágmarkstíma í maraþonhlaupi í...

AFREKSMÁL

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Langhlauparinn Kári Steinn Karlsson úr Breiðabliki tryggði sér í haust farseðilinn til þátttöku á Ólympíuleikunum sem fram fara í London á komandi sumri þegar hann hljóp undir lágmarkstíma í maraþonhlaupi í Berlín. Hann lauk BS námi í rekstrarverkfræði í Bandaríkjunum í vor og hefur síðan einbeitt sér að æfingum og keppni í maraþonhlaupi með að það markmiði að keppa á Ólympíuleikunum næsta sumar.

Kári Steinn segir mikinn kostnað fylgja því að búa sig undir Ólympíuleikana. Hann fari m.a. í nokkrar æfinga- og keppnisferðir til útlanda á næsta ári, sú fyrsta verður strax í upphafi næsta árs þegar hann fer til mánaðardvalar í Suður-Afríku.

Kári Steinn segist hafa m.a. brugðið á það ráð að verða sér úti um vinnu þótt draumastaðan væri sú að geta einbeitt sér alfarið að æfingum og keppni fram að Ólympíuleiknum sem fram fara í júlí. Kári Steinn er í 75% starfi hjá Icelandair. „Ég byrjaði í vinnu hjá Icelandair 1. október. Það er fínt, þá fær maður einhverjar tekjur.

Best væri að geta einbeitt sér að hlaupunum

„Það var ákveðin tilbreyting að byrja með að vinna með æfingunum og nú hef ég komið mér upp ákveðinni rútínu til þess að sinna bæði vinnu og æfingum. Það væri best að geta einbeitt sér að hlaupunum því það er full vinna, en því er ekki að heilsa og þar með gerir maður einfaldlega það besta úr þessari stöðu,“ segir Kári Steinn.

Enn sem komið er nýtur hann ekki styrks frá Afrekssjóði en fær stuðning frá Actavis, sem er hans aðalstuðningsaðili, Nike, Saffran, Suzuki, Leppin og World Class. „Fyrir Berlínarmaraþonið í haust var sett upp áheitasíða fyrir mig á hlaup.is þar sem mikið safnaðist og rann beint upp í þann kostnað sem ég hafði af þátttökunni. Sú söfnun gekk vel og er ég hrærður yfir því hversu góðar viðtökurnar voru,“ segir Kári Steinn sem æfir tvisvar á dag alla daga vikunnar.

„Ég reyni að halda öllum útgjöldum í lágmarki. Ég bý t.d. hjá foreldrum og var um skeið ekki með bíl.“

Fer fljótlega til Suður-Afríku í æfingabúðir

Kári Steinn reiknar með að kostnaður við undirbúning síðasta árið fyrir Ólympíuleikanna verði í kringum fjórar milljónir. Inni því eru æfinga- og keppnisferðir, laun þjálfara og annar fagteymiskostnaður.

„Stefnan hefur verið tekin á fernar æfingabúðir fram að Ólympíuleikum. Þær fyrstu verða í Suður-Afríku í janúar og þar mun ég dvelja með dönskum langhlaupurum. Þar verð ég í tæpan mánuð. Eftir það er stefnan tekin á maraþonhlaup í Sevilla um miðjan febrúar. „Ég bið eftir svari frá Spánverjunum um það hvort ég get verið með.

Eftir það reikna ég með því að fara í háfjallaæfingabúðir í Colorado í Bandaríkjunum eftir miðjan maí.“

Fær launalaus leyfi frá vinnu

Kári Steinn segir að þrátt fyrir að hafa ráðið sig í vinnu sé ljóst að hann verði talsvert fjarverandi um lengri og skemmri tíma næstu mánuði, m.a. meðan hann verður í fyrrgreindum keppnisferðum og fleirum sem hann á eftir að negla niður.

„Ég fæ launalaus leyfi til þess að fara í þessar ferðir mínar. Ef maður reiknar vinnutap vegna þeirra inn í kostnaðinn við þetta ár fyrir Ólympíuleikana þá er ljóst að hann er talsvert hærri en sem nemur þeim fjórum milljónum sem ég hef áður nefnt. En vinnutapið sætti ég mig alveg við því ég lít á launin fyrir vinnuna sem aukapening.

Ég verð mikið frá af og til á næsta ári og þá hef ég bara lægri tekjur á meðan. Ég hef ákveðinn sveigjanleika í starfinu hjá Icelandair og get þess vegna farið frá um tíma eins og mér hentar. Það er einnig mikilvægt,“ segir Kári Steinn.

Framhaldið er óljóst og skoðar stöðuna eftir leikana

„Ég sé ekki fram á annað en að komast klakklaust út úr þessu verkefni fram að Ólympíuleikum. Ég hef góða stuðningsaðila á bak við mig, hef vinnu þannig að staðan er fín. Hvað tekur síðan við eftir Ólympíuleikana er alveg óljóst. Þá tekur við nýr kafli því styrktarsamningar mínir miðast flestir við Ólympíuleikana. Ég verð að skoða stöðuna að þeim loknum og sjá til í hvaða aðstöðu ég verð til að afla mér stuðnings við að halda áfram að æfa og keppa í maraþonhlaupi,“ segir Kári Steinn Karlsson, Íslandsmethafi í maraþonhlaupi og einn fremsti maraþonhlaupari Evrópu um þessar mundir.

Kári Steinn Karlsson
» Hann er 26 ára gamall og er Íslandsmethafi í maraþonhlaupi. Met hans er 2 klukkustundir, 17 mínútur og 12 sekúndur og það setti hann í sínu fyrsta hlaupi í greininni í Berlín í sumar. Þá sló hann 26 ára gamalt með Sigurðar P. Sigmundssonar um rúmar tvær mínútur.
» Kári Steinn er einnig Íslandsmethafi í 5.000 og 10.000 m hlaupi, og í hálfu maraþonhlaupi. Einnig á hann nokkur met í yngri flokkum.
» Hann verður fyrsti íslenski karlmaðurinn sem tekur þátt í maraþonhlaupi á Ólympíuleikum þegar leikarnir fara fram í London á næsta sumri.