Dæmdur Jacques Chirac íhugar nú að áfrýja dómnum í spillingarmálinu.
Dæmdur Jacques Chirac íhugar nú að áfrýja dómnum í spillingarmálinu. — Reuters
Jacques Chirac, fyrrverandi forseti Frakklands, var fundinn sekur um spillingu og fékk tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir rétti í París í gær.

Jacques Chirac, fyrrverandi forseti Frakklands, var fundinn sekur um spillingu og fékk tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir rétti í París í gær. Chirac er gefið að sök að hafa tekið þátt í misnotkun á opinberu fé þegar hann var borgarstjóri Parísar. Féð var notað til að borga starfsmönnum flokks forsetans fyrrverandi.

Chirac átti yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi. Hann hefur sagt að sú spilling, sem lýst er í ákærunni, hafi átt sér stað, en hann hafi ekki vitað af henni.

Chirac er fyrsti fyrrverandi þjóðhöfðingi Frakklands sem dreginn er fyrir dóm síðan Philippe Pétain marskálkur var dæmdur fyrir landráð eftir heimsstyrjöldina síðari.

Dómurinn kom mörgum á óvart, enda hafði jafnvel saksóknari óskað eftir því að Chirac yrði sýknaður þar eð hann taldi að ekki hefði tekist að sanna aðild hans að málinu.

Chirac er 79 ára og var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna vegna heilsubrests.