Ragnar fæddist á Drangsnesi 16. desember 1941. Hann lést á heimili sínu 14. september 2011.

Útför Ragnars fór fram frá Ísafjarðarkirkju 24. september 2011.

Elsku hjartans pabbi minn, þú hefðir orðið sjötugur í dag, þann 16. desember, en þú kvaddir þann 14. september síðastliðinn, eftir erfið veikindi. Mig langar að minnast þín í tilefni dagsins. Þú varst nú ekki mikið fyrir afmæli eða veislur almennt og mundir nú sjaldan ef eitthvað stóð til. Mamma sá alveg um að muna eftir afmælum fyrir ykkur, en eftir að þú veiktist þá leistu öðrum augum á lífið og óskaðir þess örugglega í eina skiptið á lífsleiðinni að geta haldið uppá afmælið þitt. En það fer víst oft öðruvísi en maður óskar, enginn ræður víst sinni för.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum

lífsins degi.

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem

gleymist eigi.

og gæfa var það öllum,er fengu að kynnast þér.

Með ástarþökk ertu kvödd í hinsta sinni hér

og hlýhug allra vannstu er fengu að kynnast þér.

Þín blessuð minning vakir og býr í vina hjörtum

á brautir okkar stráðir þú, yl og geislum björt um.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Enginn veit hvað átt hefur, fyrir en misst hefur segir máltækið. Við eigum að þakka fyrir þá sem eru í lífi okkar og sýna þeim í verki að þeir eru okkur mikils virði, því við vitum ekki hvað þeir verða lengi til staðar. Því vil ég þakka fyrir að þú ert pabbi minn og að þú hafir verið til staðar fyrir mig og mína.

Þetta skrifaði ég til þín í sumar og þakka fyrir það. Ég vona að það sé haldið upp á daginn þinn þarna hinum megin, ég ætla alla vega að halda upp á hann. Takk fyrir allt og allt, elsku pabbi minn.

Þín elsku dóttir,

Guðrún Ragnheiður.