Rúmt ár er síðan alþingismenn greiddu atkvæði um hvort höfða skyldi mál fyrir landsdómi á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum. Alþingismenn undirbúa nú þingsályktunartillögu um að fela saksóknara Alþingis að draga tilbaka ákæru á hendur Geir H.

Rúmt ár er síðan alþingismenn greiddu atkvæði um hvort höfða skyldi mál fyrir landsdómi á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum.

Alþingismenn undirbúa nú þingsályktunartillögu um að fela saksóknara Alþingis að draga tilbaka ákæru á hendur Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í fyrra var sú að samþykkt var með 33 atkvæðum gegn 30 að ákæra yrði gefin út á hendur Geir.

Athygli vakti við atkvæðagreiðsluna að Samfylkingarmenn tóku mismunandi afstöðu til ákæranna. Níu Samfylkingarmenn samþykktu að höfðað yrði mál gegn Geir. Þetta voru Jónína Rós Guðmundsdóttir, Magnús Orri Schram, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Skúli Helgason.

Af þessum níu þingmönnum Samfylkingar greiddu hins vegar fjórir atkvæði gegn því að höfðað yrði mál gegn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrv. utanríkisráðherra.

Tillaga um málshöfðun gegn Ingibjörgu Sólrúnu var felld með 34 atkvæðum gegn 29. Munaði því fjórum atkvæðum á því að tillaga um hana var felld og samþykkt um Geir.

Þingmenn Framsóknar skiptust í tvennt. Þrír þeirra greiddu atkvæði á móti öllum tillögunum en sex með. Það voru Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir, Huld Aðalbjarnardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Hauksdóttir. Þingmenn annarra flokka studdu annað hvort allar tillögur um málshöfðun á hendur ráðherrunum eða greiddu atkvæði gegn þeim.

Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, 16 talsins, greiddu atkvæði gegn málshöfðun á hendur ráðherrunum fjórum. Þingmenn VG og Hreyfingarinnar vildu að höfðað yrði mál gegn ráðherrunum fjórum.

sigrunrosa@mbl.is