Útskrift Oddfríður Halla Þorsteinsdóttir, þriðja frá vinstri, með nýju doktorunum og foreldrum Söru Al-Bader.
Útskrift Oddfríður Halla Þorsteinsdóttir, þriðja frá vinstri, með nýju doktorunum og foreldrum Söru Al-Bader.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Athygli vakti að í haustútskrift Toronto-háskóla í Kanada á dögunum útskrifaðist bresk kona, Sara Al-Bader, með doktorsgráðu tæplega ári eftir að hún lést ásamt eiginmanni sínum í bílslysi, en Oddfríður Halla Þorsteinsdóttir, dósent við skólann, hafði umsjón með því að lokið var við doktorsverkefnið.

Oddfríður Halla er vísindafræðingur og hefur búið í Toronto síðan 1998, en kennt við læknaskóla Toronto-háskóla síðan 2001. Hún hefur haft umsjón með námi sem tengist heilbrigðisástandi í þróunarlöndunum en Sara Al-Bader vann að nýsköpun á sviði heilbrigðisvísinda í þróunarlöndum.

Ætluðu að flytja

Hjónin Sara Al-Bader og Michael Smoughton voru á leið frá Toronto til Halifax þegar þau lentu í ísingu og létust í bílslysi skammt frá Montreal í nóvember í fyrra. Þau voru í gömlum bíl sem eiginmaðurinn ætlaði að flytja með sér til Bretlands þar sem hann hafði fengið vinnu sem skipulagsfræðingur í London. Hún ætlaði að taka lestina til baka frá Halifax og ljúka ritgerðinni en fara síðan á eftir honum til Englands.

Fór fyrir hópnum

Ekki er algengt að fólk fái doktorsgráðu eftir að hafa fallið frá. Oddfríður Halla segir að samstúdentar Söru hafi strax eftir slysið kannað hvort Sara, sem var 34 ára þegar hún lést, gæti ekki útskrifast með þeim. Þeir hafi komist að því að Háskólinn í Toronto fylgir ákveðinni stefnu um hvernig veita skuli þess konar gráður. Í kjölfarið hafi hópurinn athugað hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla til þess að draumurinn yrði að veruleika. Nemarnir hafi komist að því að verkefninu þyrfti að mestu leyti að vera lokið og þar sem það hafi verið raunin hafi þeir ákveðið að ljúka því í sameiningu. „Ég var í verkefnisnefnd hennar, hafði oft talað við hana um verkefnið og tók því að mér að leiða hópinn,“ segir Oddfríður Halla.

Oddfríður Halla bætir við að félagar Söru hafi verið önnum kafnir við eigin verkefni og fljótlega komist að því að það var ekki eins auðvelt og þeir héldu að setjast niður með texta annars nemanda og þurfa að laga og breyta. „Það er ekki auðvelt að fara inn á svæði annars manns og því tók ég að mér að vinna með textann,“ segir Oddfríður Halla.

NÝSKÖPUN HEILBRIGÐISVÍSINDA Í AFRÍKU

Kynnti ritgerðina í Argentínu

Fjórir nemendur komu að lokaverkefni Söru Al-Bader með Oddfríði Höllu Þorsteinsdóttur og var hún leiðbeinandi þriggja þeirra í doktorsnáminu. Ritgerðin fjallar um nýsköpun heilbrigðisvísinda í Afríku. Rannsóknir Söru í Suður-Afríku og Gana voru hluti af doktorsverkefni hennar og bar hún þær saman við gögn frá Tansaníu og Úganda. Oddfríður Halla segir að það hafi auðveldað að fá samþykki fyrir útskriftinni að Sara hafði birt tvær greinar úr rannsókn sinni í virtum tímaritum, m.a. í Nature Biotechnology. „Það er gaman að okkur tókst að ljúka þessu og Sara fékk doktorsgráðuna. Ritgerðin hennar er góð og við vildum að röddin hennar heyrðist,“ segir hún, en Oddfríður Halla kynnti ritgerðina á ráðstefnu í Argentínu á dögunum.