Slagur Tandri Konráðsson var öflugur í sóknarleik HK og Ingimundur Ingimundarson í varnarleik Fram. Hér reynir Ingimundur að stöðvar Tandra í leiknum.
Slagur Tandri Konráðsson var öflugur í sóknarleik HK og Ingimundur Ingimundarson í varnarleik Fram. Hér reynir Ingimundur að stöðvar Tandra í leiknum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Digranesi Kristján Jónsson kris@mbl.is HK komst upp fyrir Fram í síðustu umferð fyrir EM-fríið í N1-deild karla í handknattleik í gærkvöldi. HK sigraði Fram 30:27 í Digranesinu en Fram hafði yfir að loknum fyrri hálfleik 15:13.

Í Digranesi

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

HK komst upp fyrir Fram í síðustu umferð fyrir EM-fríið í N1-deild karla í handknattleik í gærkvöldi. HK sigraði Fram 30:27 í Digranesinu en Fram hafði yfir að loknum fyrri hálfleik 15:13. Því er ljóst að bæði lið verða á ferðinni í deildarbikarnum á milli jóla og nýárs en þangað komast fjögur efstu liðin í deildakeppninni á þessum tímapunkti. HK er í 3. sæti en Fram fór niður í 4. sæti en tvö efstu liðin, Haukar og FH, eiga frestaðan leik til góða í næstu viku.

Framarar höfðu frumkvæðið í 40 mínútur þó jafnt væri reyndar á mörgum tölum. Þeir voru þó á undan og leikurinn virtist þróast ágætlega fyrir þá. Mjög margir leikmenn voru inni í leiknum í sókninni en eina áhyggjuefnið var kannski að Magnús Erlendsson varði óvenju lítið í markinu. Þegar Framarar lentu undir þá misstu þeir hins vegar gersamlega taktinn. Lentu þá fljótt þremur mörkum undir og í framhaldinu voru þeir fimm mörkum undir. Framarar reyndu að breyta til og leysa leikinn upp á lokamínútunum. en það var of seint. Þá settu þeir til dæmis Sebastian Alexanderson í markið.

Tandri lét að sér kveða

HK getur vel við unað. Liðið vann sterkt lið Fram þrátt fyrir að hafa ekki átt toppleik og markverðirnir vörðu ekki nema 12 skot samtals. Arnór Freyr Stefánsson varði 11 þeirra og stóð sig reyndar vel því hann spilaði um það bil 2/3 af leiktímanum. Varnarleikur HK var nokkuð góður og þá sérstaklega í síðari hálfleik en það hlýtur að teljast viðunandi að halda Fram í 12 mörkum í síðari hálfleik. Tandri Már Konráðsson lét verulega að sér kveða í gærkvöldi og forvitnilegt verður að fylgjast með honum eftir áramót. Tandri byrjaði á bekknum en skilaði sex mörkum eftir að hann kom inn á og skoraði nokkur mikilvæg þegar Fram var með leikmenn í kælingu.

Ingimundur Ingimundarson var í stöðu leikstjórnanda í sókninni hjá Fram og skilaði því ágætlega. Ingimundur lék í þeirri stöðu þegar hann varð Noregsmeistari með Elverum árið 2008 þó hann hafi verið skytta hérlendis á árum áður.

HK – Fram 30:27

Digranes, úrvalsdeild karla, N1 deildin, fimmtudaginn 15. desember 2011.

Gangur leiksins : 0:2, 2:2, 3:5, 5:5, 7:7, 7:10, 9:10, 10:12, 13:15 , 14:15, 16:17, 18:17, 23:18, 25:20, 27:24, 29:27, 30:27 .

Mörk HK : Tandri Már Konráðsson 6, Atli Ævar Ingólfsson 6, Bjarki Már Elísson 6/4, Ólafur Bjarki Ragnarsson 4, Ólafur Víðir Ólafsson 3, Leó Snær Pétursson 2, Vilhelm Gauti Bergsveinsson 2, Bjarki Már Gunnarsson 1.

Varin skot : Arnór Freyr Stefánsson 11/1 (þar af 6 aftur til mótherja)., Björn Ingi Friðþjófsson 1.

Utan vallar : 8 mínútur.

Mörk Fram : Arnar Birkir Hálfdánarson 5, Sigurður Eggertsson 5, Ingimundur Ingimundarson 5/2, Einar Rafn Eiðsson 5/3, Róbert Aron Hostert 3, Stefán Baldvin Stefánsson 2, Jóhann Karl Reynisson 1.

Varin skot : Magnús Erlendsson 9/1 (þar af 4 aftur til mótherja), Sebastian Alexanderson 5 (þar af 2 aftur til mótherja).

Utan vallar : 10 mínútur.

Dómarar : Arnar Sigurjónsson og Svavar Pétursson.

Áhorfendur : 653. Hljóðlátir áhorfendur.