Kristín fæddist að Stóru-Reykjum í Hraungerðishreppi í Flóa 10. ágúst 1918. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Grund 2. desember 2011.

Útför Kristínar Maríu var gerð frá Neskirkju 9. desember 2011.

Elskuleg frænka mín Kristín Gísladóttir er látin í hárri elli. Tímans straum fær enginn stöðvað og það kvarnast hratt úr frænkuklúbbnum hennar mömmu. Klúbburinn var stofnaður upp úr 1950 og upprunalega skipuðu hann þær Kristín Gísladóttir og systur hennar, Oddný (nú látin), Ingibjörg og Sólveig en þær voru allar dætur Maríu Þorláksínu ömmusystur minnar. Þá voru þær þar líka Kristín og Jóna Davíðey (nú látin), dætur annarrar Maríu sem líka var systir ömmu Valdísar og Ósk, kona Friðfinns bróður þeirra. Og svo voru það mamma og systur hennar, Kristín og Jenný sem báðar létust á síðasta ári. Frænkurnar komu reglulega saman í gegnum árin og spjölluðu yfir kaffi og kruðeríi og virtust alltaf skemmta sér vel. Ég sá þær ekki oft en þær voru samt þarna, mættu í fermingar og aðrar fjölskylduveislur og svo sat maður stundum fyrir svörum þeirra þegar klúbbarnir voru hjá mömmu. Hvað maður væri að fást við, hvernig manni gengi í lífinu. Þær studdu hver aðra þegar á bjátaði og þegar karlarnir fóru að tína tölunni voru þær þarna áfram, rétt eins og þær yrðu þar til eilífðar. Kristínu Gísladóttur átti ég eftir að kynnast betur þegar ég varð eldri og tók þátt í starfi Kvenréttindafélags Íslands og í pólitík. Þar kom hún frænka mín gjarnan á fundi og við spjölluðum saman. Hún hafði skoðanir á þjóðmálunum og hafði alltaf eitthvað skynsamlegt fram að færa. Hún hafði mikla eðlisgreind og leiftrandi kímnigáfu og það var ekki leiðinlegt að viðra stöðu stjórnmálanna eða önnur þjóðþrifamál við hana. Fyrir nokkrum árum var blásið til frænkumóts úr ættboga ömmu Valdísar og systkina hennar á Selfossi og það var gaman að heyra sögurnar frá frænkunum þar sem þær rifjuðu upp liðna tíð. Þar var Kristín Gísladóttir kvenna hressust, þótt hún hafi þá þegar verið komin fast að níræðu. Síðan þá hef ég hitt hana nokkrum sinnum og það var alltaf sama reisnin yfir henni og jafn gaman að spjalla við hana. Ég vil þakka henni fyrir samfylgdina og góðar stundir í gegnum tíðina. Ástvinum hennar öllum og afkomendum sendi ég samúðarkveðjur frá mér og mömmu. Minning um þessa merku konu mun alltaf lifa í hjörtum okkar.

Bryndís

Hlöðversdóttir.