Stuð Frá Airwaves-tónleikum á Nasa í október.
Stuð Frá Airwaves-tónleikum á Nasa í október. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Kristján Jónsson kjon@mbl.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Gestir á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves voru í heild 23% fleiri í haust en í fyrra, fjölgunin var hlutfallslega enn meiri meðal erlendra ferðamanna eða 26%, að því er fram kemur í könnun sem Tómas Young gerði fyrir Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, Útón. Alls komu hingað gestir frá um 50 löndum, að sögn Gríms Atlasonar, framkvæmdastjóra hátíðarinnar.

Fram kemur að erlendu gestirnir dvöldust að þessu sinni einum degi lengur á landinu en í fyrra eða sex daga. Þeir eyddu alls um 450 milljónum króna hér á landi meðan hátíðin stóð yfir, veltuaukningin var um 44% milli ára. Næst verður Airwaves nokkru seinna á árinu en áður.

„Hún hefur alltaf verið um þriðju helgina í október en verður næst 31. október til 4. nóvember,“ segir Grímur. „Aðsóknin er orðin svo mikil og núna ætlum við að reyna að losa okkur við alla aðra túrista, þetta er orðið of mikið! Þá sitjum við nærri ein að svo mörgu, flugvélasætum og öðru. Við getum auðvitað ekki tekið mikla áhættu, m.a. vegna veðurfarsins, þess vegna seinkum við bara um tvær vikur. En í ár var veðrið eiginlega betra í byrjun nóvember.“

Gestir koma víða að

Gestir Airwaves koma víða að, flestir frá nágrannalöndunum en sumir frá Austur-Evrópu, aðrir alla leið frá Mexíkó og Japan. Hann segir að fólkið sé af öllu tagi en yfirleitt þó í yngri kantinum, líklega sé meðalaldur útlendinganna um þrjátíu ár en lægri hjá innlendum gestum.

Alls séu tónleikar á 12 stöðum og venjulega sé röð á einum eða tveimur stöðum. „En oft er engin röð þar sem það besta er í boði, það er ekki enn orðið frægt en verður það. Eftir tvö ár hafa svo allir verið á þeim tónleikum sem voru stærstir og bestir! Við höfum fengið mikla umfjöllun út um allt, síðast var það Spin Magazine, eitt stærsta lífsstíls- og tónlistarrit í heimi, og Rolling Stone hefur birt greinar um okkur.“