Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Eftir Guðlaug Þór Þórðarson: "Þannig er ljóst að allir hafa tapað á ákvörðunum fjármálaráðuneytisins og FME vegna þessara fyrirtækja. Ætlar einhver að axla ábyrgð?"

Vinnubrögð stjórnvalda vegna Byrs og Sparisjóðsins í Keflavík hafa verið að koma betur í ljós. Það hefur ekki gerst af sjálfu sér eða vegna vilja þessarar ríkisstjórnar að upplýsa almenning um gang mála. Það hefur gerst vegna þess að gengið hefur verið eftir upplýsingum, og þrátt fyrir að reynt hafi verið að takmarka aðgang þeim geta allir séð að lög um eiginfjárhlutfall hafa verið brotin. Það er þvert á yfirlýsingar forstjóra FME en staðreyndirnar tala sínu máli.

Forsaga

Bæði Byr sparisjóður og Sparisjóðurinn í Keflavík voru með jákvætt eigið fé skv. ársreikningum ársins 2008, sem gefnir voru út vorið 2009 (16.000 milljónir hjá Byr og 5.400 milljónir hjá SPK). Þrátt fyrir jákvætt eigið fé fóru félögin undir 8% lágmarkseiginfjárhlutfall skv. lögum og fengu undanþágu til að starfa hjá FME. Eftir það virðast eignir hafa rýrnað verulega og í apríl 2010 (eftir að hafa verið á undanþágu hjá FME í um ár) voru stofnuð ný félög, Byr hf. og SpKef sparisjóður. Þessi nýju félög uppfylltu aldrei lágmarkskröfur laga um eigið fé.

Byr hf.

Samkvæmt lögum skal lágmarkseiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja vera 8% (þ.e. eiginfjárgrunnur skal vera að lágmarki 8% af áhættugrunni skv. 84. gr. laga nr. 161/2002). Byr hf. var stofnaður af fjármálaráðuneytinu í apríl 2010, en eignir og innlán gamla Byrs flutt til hans af FME. Lengi var fjárhagsupplýsingum um Byr hf. haldið leyndum en komu þó fram í sumarlok 2011.

Stofnefnahagsreikningur Byr frá apríl 2010 var birtur í lok ágúst 2011 (með ársreikningi ársins 2010). Af honum má sjá að eigið fé í upphafi var 900 milljóna króna framlag ríkisins en efnahagsreikningur félagsins var um 144.000 milljónir. Þrátt fyrir að eiginfjárhlutfall sé ekki reiknað beint af þessum tölum heldur áhættugrunni er ljóst að það var undir 1% í upphafi. Samkvæmt ársreikningnum var eiginfjárhlutfall 5% í lok 2010, en þá er reiknað með hlutafjárloforði þrotabús gamla Byrs, sem var ekki greitt fyrr en sumarið 2011. Ef litið er á árshlutareikning Byrs fyrir mitt ár 2011 þá var eiginfjárhlutfall 4,1%. Þannig er augljóst að Byr uppfyllti frá stofnun aldrei kröfur laga um 8% lágmarkseiginfjárhlutfall.

SpKef sparisjóður

SpKef sparisjóður var stofnaður af fjármálaráðuneytinu í apríl 2010, en eignir og innlán gamla SPK flutt til hans af FME. Stofnefnahagsreikningur félagsins hefur ekki verið birtur né ársreikningur fyrir 2010. Þetta gengur gegn eigendastefnu ríkisins um eignarhald á fjármálafyrirtækjum.

Af gögnum sem hafa verið lögð fram í efnahags- og viðskiptanefnd verður ekki séð að neitt eiginfjárframlag hafi verið lagt inn í SpKef. Samkvæmt skýrslu ríkisendurskoðunar fyrir árið 2010 segir að lagðar hafi verið fram 900 milljónir í félagið. Sú upphæð er langt undir lögbundnu 8% lágmarki. Ég skora á FME og fjármálaráðuneytið að leggja fram stofnefnahagsreikning SpKef og ársreikning ársins 2010.

Af hverju fengu gamli Byr og Sparisjóðurinn í Keflavík að starfa í tæpt ár?

Samkvæmt 9. gr. laga um fjármálafyrirtæki ber FME að afturkalla starfsleyfi ef lágmarkskröfur um eigið fé eru ekki uppfylltar og fjármálafyrirtæki geta ekki bætt úr því. Samkvæmt 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki getur FME veitt fyrirtækjum sex mánaða frest til að auka eigið fé sitt. Slíkur frestur byggist á því mati FME að líkur standi til að bæta megi eiginfjárstöðuna. Hægt er að framlengja þennan frest um sex mánuði „séu til þess ríkar ástæður“. FME hefur aldrei svarað því hvaða forsendur, útreikningar og „ríku ástæður“ mæltu með því að (gamli) Byr og (gamli) SPK fengu að starfa á undanþágu umfram sex mánuði. Ljóst er að mat FME var rangt, bæði (gamli) Byr og (gamli) SPK fóru á hausinn og ný fyrirtæki voru stofnuð í apríl 2010 um ári eftir að þeim var veitt undanþága til að starfa. Það var einnig rangt mat að stofna ný fyrirtæki um rekstur þessara félaga – hver tók þá ákvörðun?

Tjón kröfuhafa, keppinauta og ríkisins – hver axlar ábyrgð?

Þannig er ljóst að Byr hf. og SpKef (nýju) uppfylltu aldrei kröfur laga um lágmarkseiginfjárhlutfall þrátt fyrir að þeir væru stofnaðir af fjármálaráðuneytinu. Samt starfaði fyrra félagið í 19 mánuði og það síðara í 11 mánuði, þrátt fyrir að FME vissi stöðuna. Áður hafði FME leyft gamla Byr og Sparisjóði Keflavíkur að starfa í um ár án þess að uppfylla lágmarkseiginfjárhlutfall. Samtals gerir þetta 30 mánuði hjá (gamla/nýja) Byr og 23 mánuði hjá (gamla/nýja) Sparisjóði Keflavíkur án þess að uppfylla reglur. Á meðan rýrnuðu eignir verulega, bæði vegna stjórnunar þeirra og rekstrarkostnaðar. Þessu til viðbótar skaðaðist samkeppni því félögin voru í fullri samkeppni við önnur fyrirtæki sem þurftu að uppfylla kröfur laga. Að síðustu er ljóst að innlán í Sparisjóði Keflavíkur jukust um sjö milljarða á milli ársloka 2008 og 2010 á ábyrgð ríkisins. Þannig er ljóst að allir hafa tapað á ákvörðunum fjármálaráðuneytisins og FME vegna þessara fyrirtækja. Ætlar einhver að axla ábyrgð?

Höfundur er alþingismaður.

Höf.: Guðlaug Þór Þórðarson