Drjúgur Gylfi Gylfason var að vanda öflugur með Haukum.
Drjúgur Gylfi Gylfason var að vanda öflugur með Haukum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ásvöllum Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Eftir tap á Akureyri í síðustu viku komust Haukar á sigurbraut á ný þegar þeir lögðu Aftureldingu, 26:20, á Ásvöllum.

Á Ásvöllum

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Eftir tap á Akureyri í síðustu viku komust Haukar á sigurbraut á ný þegar þeir lögðu Aftureldingu, 26:20, á Ásvöllum. Leikurinn fer ekki á spjöld sögunnar fyrir gæði og mikla skemmtun en sigur Haukanna var aldrei í hættu. Þeir héldu Mosfellingum í þægilegri fjarlægð allan tímann og uppleggið að sigrinum var góð markvarsla Arons Rafns Eðvarðssonar og lengst af fínn varnarleikur. Þegar þessir tveir hlutir eru í lagi er það oftar en ekki ávísun á sigur og þetta eru þeir þættir sem hafa fleytt Haukunum í efsta sætið.

Sóknarleikur toppliðsins var þó ekkert til að hrópa húrra fyrir. Gylfi Gylfason og Heimir Óli Heimisson sýndu góða takta en maður hafði það á tilfinningu að stór hluti leikmanna Hauka væri með hugann við stórleikinn á mánudaginn en þá fer fram slagur FH og Hauka í Kaplakrika.

„Við höfum oft spilað betur en stigin tvö eru það sem telja. Það eru ýmsir hlutir sem við þurfum að laga,“ sagði Gylfi Gylfason, leikmaðurinn knái í liði Hauka, við Morgunblaðið. Gylfi sneri heim úr atvinnumennskunni í sumar og hefur spilað vel fyrir Haukaliðið í vetur. Hann segist hlakka til að mæta FH.

„Við förum í þann leik til að vinna og vonandi verður stemningin til staðar. Maður er búinn að heyra mikið af þessum leikjum og það verður gaman að vera þátttakandi í honum.“

Spurður hvernig honum finnist spilamennskan almennt í N1-deildinni sagði Gylfi; „Ég finn fyrir miklum metnaði í íslensku leikmönnunum og menn eru leggja sig fram. Auðvitað eru gæðin ekki þau sömu og ég átti að venjast í Þýskalandi en það vantar ekki áræðið. Það er öðruvísi handbolti spilaður hér. Það er meira um gegnumbrot og stimplanir og ég hef þurft að aðlagast því eftir að hafa spilað úti í nokkur ár. Það hefur ekkert breyst hjá Haukum frá því ég var hér síðast. Við förum í öll mót með því hugarfari að vinna. Mótið er jafnt þar sem allir geta unnið alla en stefnan hjá okkur er að vera í titilbaráttu,“ sagði Gylfi.

Davíð Hlíðdal Svansson var besti maður Aftureldingar og þá áttu Böðvar Páll Ásgeirsson og Hilmar Stefánsson ágæta spretti. Það verður ekki af Mosfellingum tekið að þeir börðust vel og náðu upp ágætum varnarleik en sóknarleikurinn var stirður og ekki bætti úr skák að vinstrihandarskyttan Sverrir Hermannsson heltist úr leik vegna meiðsla eftir 15 mínútna leik.

Haukar – Afturelding 26:20

Schenkerhöllin Ásvöllum, úrvalsdeild karla, N1 deildin, fimmtudaginn 15. desember 2011.

Gangur leiksins : 0:1, 4:1, 8:2, 10:5, 12:6, 13:8 , 17:10, 20:15, 22:19, 26:19, 26:20 .

Mörk Hauka : Gylfi Gylfason 8/5, Heimir Óli Heimisson 6, Tjörvi Þorgeirsson 4, Stefán Rafn Sigurmannsson 3, Árni Steinn Steinþórsson 2, Einar Pétur Pétursson 1, Sveinn Þorgeirsson 1.

Varin skot : Aron Rafn Eðvarðsson 19 (þar af 2 til mótherja).

Utan vallar : 8 mínútur.

Mörk Aftureldingar : Hilmar Stefánsson 8/5, Böðvar Páll Ásgeirsson 6, Þorlákur Sigurjónsson 3, Einar Héðinsson 1, Sverrir Hermannsson 1, Helgi Héðinsson 1.

Varin skot : Davíð Hlíðdal Svansson 15 (þar af 3 til mótherja).

Utan vallar : 8 mínútur.

Dómarar : Jónas Elíasson og Ingvar Guðjónsson.

Áhorfendur : 470.