Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Forsætisráðherra sagði á þingi í gær að tekið yrði á refsiaðgerðum Evrópusambandsins gegn Íslandi „af mikilli festu“ ef sambandið ákvæði að grípa til slíkra aðgerða. Tilefnið var fyrirspurn frá Einari K.

Forsætisráðherra sagði á þingi í gær að tekið yrði á refsiaðgerðum Evrópusambandsins gegn Íslandi „af mikilli festu“ ef sambandið ákvæði að grípa til slíkra aðgerða.

Tilefnið var fyrirspurn frá Einari K. Guðfinnssyni, sem vildi vita til hvaða aðgerða yrði gripið af hálfu íslenskra stjórnvalda og hvort ekki væri óeðlilegt að eiga í aðildarviðræðum við ESB á sama tíma og sambandið undirbýr mögulegar refsiaðgerðir á hendur okkur.

Jóhanna taldi slíkar hótanir ekki frekar en annað gefa tilefni til að hætta við umsóknina, en eins og áður sagði ætlar hún að taka á málinu „af mikilli festu“.

Þeirri festu kynntust landsmenn vel í grjótharðri afstöðu stjórnvalda í Icesave-málinu, þegar sérhver óbilgjörn og ólögmæt krafan á fætur annarri var samþykkt möglunarlaust.

Áhyggjur af því að losaralega verði haldið á málstað Íslands gagnvart ESB í þessu máli eru þess vegna alveg óþarfar.

Og með sama hætti væri óþarfi að hafa áhyggjur af stöðu Íslands í samningaviðræðum um makríl eða aðra flökkustofna ef Jóhönnu tækist að þvinga Ísland inn í ESB.

Þá væri staða Íslands engin, Íslandi yrði skammtað það sem ESB hentaði og Jóhanna mundi verja íslenska hagsmuni af mikilli festu.