David Villa
David Villa
David Villa, framherji Barcelona og spænska landsliðsins, verður frá keppni í það minnsta næstu sex mánuði eftir að hafa fótbrotnað í leik Börsunga og Al-Sadd frá Katar í undanúrslitum á HM félagsliða í Japan í gær.

David Villa, framherji Barcelona og spænska landsliðsins, verður frá keppni í það minnsta næstu sex mánuði eftir að hafa fótbrotnað í leik Börsunga og Al-Sadd frá Katar í undanúrslitum á HM félagsliða í Japan í gær. Við skoðun kom í ljós sprunga í sköflungi. „Villa mun halda til Barcelona eins fljótt og auðið er og gangast undir aðgerð. Ég er mjög leiður yfir þesu. Þetta er mjög óheppilegt og mikið áfall fyrir liðið,“ sagði Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, við fréttamenn eftir leikinn í gær.

Vegna meiðslanna er ólíklegt að Villa nái að spila með Spánverjum í lokakeppni EM í Póllandi og Úkraínu næsta sumar.

Barcelona hafði annars talsverða yfirburði og sigraði, 4:0. Adriano skoraði tvívegis í fyrri hálfleik og þeir Seydou Keita og Maxwell bættu við mörkum í þeim síðari. Guardiola hvíldi þá Xavi, Cesc Fabregas, Gerard Piqué og Dani Alves alveg í leiknum.

Barcelona mætir Suður-Ameríkumeisturum Santos í úrslitaleiknum í Japan á sunnudagsmorguninn klukkan 10.30 en á undan leikur Al-Sadd við Kashiwa Reysol frá Japan um þriðja sætið. vs@mbl.is