Yrsa Í heildina er þetta flott bók hjá Yrsu, segir m.a í bókadómnum.
Yrsa Í heildina er þetta flott bók hjá Yrsu, segir m.a í bókadómnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Yrsu Sigurðardóttur. Veröld. 2011. 364 síður.

Sögusviðið er einangrað. Skip úti á reginhafi, sambandslaust við umheiminn. Tveir hópar um borð; annar þeirra samanstendur af fjögurra manna kjarnafjölskyldu, pabbi, mamma og tvíburasystur. Hinum hópnum tilheyra geðstirðir og félagsfælnir skipverjar. Þetta er umgjörð nýjustu glæpasögu Yrsu Sigurðardóttur, Brakið.

Að sögusvið hryllingssagna sé einangrað og úr alfaraleið, þar sem saklaust fólk á sér engrar undankomu auðið er svo sem ekkert nýtt í (glæpa)sögunni. Fjallahótelið í kvikmynd Stanley Kubric, Shining, kemur fyrst upp í hugann, en sögusvið fjölda óhugnanlegra sagna eru alls konar fjallakofar, eyðieyjur og aðrir afskekktir staðir. Þetta svínvirkar og það eykur umtalsvert á þann hroll óhugnaðar og spennu sem um lesandann hríslast þegar ljóst er að sögupersónurnar eru í sjálfheldu og komast hvorki lönd né strönd undan skelfilegum örlögum sínum.

Bókin hefst á því þegar aðstandendur skipverja eru samankomnir á bryggju í Reykjavík og bíða þess að skipið leggist að landi. Þegar skipið nálgast, er ljóst að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Það siglir stjórnlaust á bryggjuna og þegar farið er um borð kemur í ljós að skipið er mannlaust.

Lögmaðurinn Þóra mætir til leiks að nýju eftir að hafa fengið hvíld í síðustu bók Yrsu. Aðstandendur fjölskyldunnar sem hvarf leita liðsinnis Þóru til að fá aðstoð hennar við að fá bætur greiddar og eins og endranær fer Þóra um víðan völl til að leita skýringa, uns málið er leyst. Hinn einkennilegi og afar fúllyndi ritari, Bella, hefur aldrei verið kjaftforari og ófyrirleitnari og það er líklega bara tímaspursmál hvenær hún fær sínar eigin bækur. Aðrar aukapersónur eru litlausari, til dæmis fer lítið fyrir Matthew, sambýlismanni Yrsu, og samskipti Þóru við son sinn og fjölskyldu hans virðast fremur yfirborðskennd.

Yrsa gerir flest vel í bókinni, en sumt hefði betur mátt fara og öðru hefði hreinlega mátt sleppa. Til dæmis hefði sá hluti sem snýr að hruninu og lífsstíl útrásarvíkinga alveg mátt missa sín, þetta er hliðarsaga sem kemur glæpasögunni sem slíkri lítið við, þó að vissulega sé þar lögð áhersla á græðgina sem hreyfiafl hins illa. En þessi hrunsvísa hefur bara verið svo oft kveðin í allskonar bókmenntum frá 2008.

Yrsa heldur áfram dufli sínu við hið dulræna eins og í bókinni Ég man þig. Henni ferst þetta vel úr hendi, enda fátt meira hrollvekjandi en góð blanda af glæpum og draugagangi. Í heildina er þetta flott bók hjá Yrsu, en allra bestu hlutarnir eru þegar verið er að segja frá því sem gerist um borð í skipinu, þá er sagan virkilega fín; myrk og ísköld. Eins og hafið.

Anna Lilja Þórisdóttir

Höf.: Anna Lilja Þórisdóttir