Guðjóna Jósefína Jónsdóttir fæddist á Sólheimum í Grindavík 22. febrúar 1926. Hún lést á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi þann 1. desember 2011.

Útför Guðjónu fór fram frá Reykholtskirkju 10. desember 2011.

Ég var ekki há í loftinu þegar ég man eftir mínum fyrstu kynnum af Guðjónu, þetta var á mínum grunnskólaárum í Varmalandi.

Bekkurinn okkar var svona í hressari kantinum, en alltaf þegar Guðjóna gekk inn í skólastofuna setti alla hljóða og hún átti alla okkar athygli, hjartað fór að slá aðeins hraðar því maður vissi ekki á hverju við áttum von, var það vigtin, flúorið eða sprautan ógurlega.

Það var einhvern veginn þannig að hún hafði þessi áhrif á mann svo virðuleg, róleg og eins og hún vissi allt, en ekki óraði mig fyrir því þá að seinna ættum við eftir að tengjast sterkum böndum og hún yrði yndisleg tengdamóðir mín sem jafnan kölluð var amma Gauja.

Mér er efst í huga mikið þakklæti fyrir að hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að verða samferða Guðjónu, eftir að ég fluttist hingað að Sturlu-Reykjum. Það eru margar minningarnar sem koma upp í hugann og gott að geta látið hugann reika, en ég veit að það er mikil eigingirni að kveðja með söknuði því Guðjóna var löngu tilbúin til að fara á vit nýrra ævintýra, til þeirra sem hún saknaði svo sárt.

Elsku Jonni minn, Snorri, Villa, Dísa og öll ömmubörnin, eftir sitjum við með fallegar minningar, minningar um konu sem tókst á við lífið af ótrúlegu æðruleysi og vildi alltaf allt fyrir alla gera.

Guð geymi þig.

Hvíl í friði.

Hrafnhildur.

Elsku fallega vinkona mín, takk fyrir allt sem þú varst mér, alla hlýjuna sem þú gafst mér og allar skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman.

Fyrsta minning mín um þig er þegar ég er lítil stelpa að fara til læknis á heilsugæsluna á Kleppjárnsreykjum og horfði með aðdáun á þessa fallegu konu með uppsett hárið og hlýja brosið. Svo varstu skólahjúkkan sem sprautaðir mig og sagðir mér að strákarnir yrðu ekki skotnir í mér nema ég grenntist svolítið, svo brostirðu stríðnislega.

Svo liðu árin og mamma greindist með Parkinsonsjúkdóminn og þú komst vikulega til að hjálpa okkur með böðun og aðhlynningu og þá í raun bast vináttuhnútur sem aldrei slitnaði.

Þú fannst alltaf á þér ef eitthvað var að angra mig og hjá þér var jafn gott að gráta og það var yndislegt að hlæja með þér.

Þegar krakkahópurinn minn stækkaði ár frá ári var ljúft að skreppa ein á kvöldin yfir að Sturlu- Reykjum og spjalla, prjóna og hlæja og oft var tíminn svo fljótur að líða að það var komið langt fram á nótt þegar heim var haldið, eða að skreppa að deginum til og skella börnunum í sundlaugina þína og fylgjast svo með þeim út um eldhúsgluggann yfir kaffibollabrúnina. Þú varst vinkonan sem kenndi mér að aldur skiptir engu máli þegar sönn vinátta er annars vegar og reyndar töluðum við oft um það hvers vegna við urðum svona nánar. Vissulega skipti máli að við áttum sameiginleg áhugamál bæði í hjúkruninni, prjónaskapnum, garðyrkjunni og börnunum okkar og einnig báðar þekktar fyrir að hafa liðugt málbein svo aldrei skorti umræðuefnið, en samt lærði ég aldrei að tala við þig í síma. Það var á einhvern hátt nærveran sem skipti máli.

Fyrir 10 árum dreymdi mig draum sem fór illa í mig, mér fannst þú vera á hnjánum, bogin yfir einiberjarunna að tína einiber. Og það má með sanni segja að síðan þá hafir þú tínt fleiri einiber en nokkur á að þurfa að tína á heilli mannsævi. Áður hafðir þú reyndar misst bónda þinn langt um aldur fram, en á síðustu 10 árum kvaddi sorgin sárt að dyrum hjá þér og einnig greindist þú með þinn versta óvin, Parkinsonsveikina, sem þú gast aldrei sætt þig við að þurfa að lifa með. En það var aðdáunarvert að fylgjast með þér sem oft varst nú svolítið móðursjúk um fólkið þitt, að þegar stóru höggin dundu á fjölskyldunni þá stóðst þú eins og óhagganlegur klettur. Og mikið þótti mér vænt um að finna að þegar þér leið illa þá baðstu mig að koma til þín og þá var ekki mikið sagt bara haldist í hendur, þessar stundir þakka ég ekki síður en hinar.

En nú er komið að kveðjustund, söknuðurinn er sár en fallegar minningar ylja og því miður gleymum við of oft að þakka fyrir að lífsþreyttur einstaklingur hefur fengið hvíld. Hjartans þakkir fyrir allt.

Þín

Jóhanna (Jóa).

Reykholtsdalur í Borgarfirði er fátækari við fráfall Guðjónu Jósdóttur hjúkrunarfræðings. Guðjóna var hjúkrunarkona af gamla skólanum, héraðshjúkrunarkona og starfaði með héraðslækni á Kleppjárnsreykjum, lengst af með Aðalsteini Péturssyni. Læknismóttakan var til húsa í sama húsi og heimili þeirra Aðalsteins og Halldóru konu hans. Var alla tíð mjög kært með fjölskyldunum og börnum þeirra. Guðjóna og Kristleifur með þrjá stælta stráka og Aðalsteinn og Halldór með stelpurnar sínar fjórar.

Haustið 1975 sameinuðust Borgarness- og Kleppjárnsreykjalæknishéruð og til varð Heilsugæslan Borgarnesi, vígð í janúar 1976. Heyrðu þá undir hana 15 sveitarfélög.

Læknir flutti úr Reykholtsdalnum í Borgarnes og Guðjóna var orðin starfsmaður Heilsugæslu Borgarness. Þar lá leið okkar saman og sú leið var löng og ljúf. Nú var hún orðin ein á heilsugæslunni á Kleppjárnsreykjum, utan þá tvo daga í viku, sem læknir kom úr Borgarnesi. Við Borgnesingar kölluðum hana stundum selstúlkuna okkar í dalnum.

Guðjóna sinnti allri þeirri heilsugæslu, sem hjúkrunarfræðingi bar í sveitinni. Allt frá nýfæddum börnum og sængurkonum. Börnunum fylgdi hún svo áfram, í ungbarna- og barnaeftirlitinu og síðar í grunnskólunum, en hún var skólahjúkrunafræðingur á Kleppjárnsreykjum, Varmalandi og í Andakílsskóla. Ætli megi ekki segja að öll sveitin hafi verið skjólstæðingur hennar, frá vöggu til grafar.

Guðjóna var hjúkrunarkona af lífi og sál jafnframt því að sinna þungu heimili. Alltaf til staðar trygg, traust og farsæl í starfi. Hún var metnaðarfull, bar mikla virðingu fyrir starfi sínu og var ólöt að sækja sér aukna fræðslu og þekkingu, hvenæar sem fær gafst. „Hún Gauja á Sturlureykjum“, „Gauja á heilsugæslunni“. Oft var kallað á hana, þegar veikindi eða slys bar að höndum, að nóttu eða degi og læknir ekki nærstaddur. Og ekki stóð á henni að sinna skyldunni, hjálpa og líkna.

Alltaf bar Guðjóna höfuðið hátt, bognaði en brotnaði ekki þrátt fyrir þungbær áföll. Guðjóna var falleg kona, alltaf jákvæð og einstaklega hláturmild og glettin. Hún var mikill fagurkeri og tónlistarviðburði lét hún ekki fram hjá sér fara allt til hins síðasta. Hún var höfðingi heim að sækja. Heimilið, garðurinn, blómin hennar, allt svo fallegt. Rúsínan í pylsuendanum var svo að gestir fengu sér iðulega sundsprett í lauginni og svo var slakað á í heita pottinum, sem bóndi hennar, hagleiksmaðurinn Kristleifur, hafði byggt handa konu sinni. Úr lauginni voru bara nokkur skref inn að notalega eldhúskróknum hennar, þar sem biðu kræsingar og Guðjóna hlæjandi, gerandi óspart grín bæði að sjálfri sér og öðrum.

Við erum óskaplega þakklátar fyrir stundina, sem við áttum með henni í nóvember síðastliðnum. Guðjóna var þá sjálfri sér lík, glettnin og grínið var þarna, þrátt fyrir langvarandi veikindi, en hún var orðin þreytt eftir langan dag.

Nú er hún horfin og Reykholtsdalurinn verður ekki samur. Við sendum öllum ástvinum hennar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Erla og Guðrún.