Sterkur Andri Berg Haraldsson skoraði 5 mörk fyrir FH-inga.
Sterkur Andri Berg Haraldsson skoraði 5 mörk fyrir FH-inga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Nesinu Stefán Stefánsson ste@mbl.is Að öllu jöfnu er tæpt að segja að þriggja marka sigur sé ekki sæmilega öruggur. Það á þó ekki við um leik botnliðs Gróttu gegn Íslandsmeisturum FH á Seltjarnarnesi í gærkvöldi.

Á Nesinu

Stefán Stefánsson

ste@mbl.is

Að öllu jöfnu er tæpt að segja að þriggja marka sigur sé ekki sæmilega öruggur. Það á þó ekki við um leik botnliðs Gróttu gegn Íslandsmeisturum FH á Seltjarnarnesi í gærkvöldi. Nýliðarnir af Nesinu voru undir allan leikinn og höfðu tækifæri í lokin til að jafna, þó ekki væri annað, en fengu þá að kenna á eigin mistökum og jafnvel dómara svo þeir urðu að sætta sig við 24:27 tap eftir að hafa leyft FH-ingum að skjóta í lokin til að reyna að vinna tíma. Varla er heldur hægt að segja að það sé slæmt að ná 1:5 forystu en það virtist einmitt slá gestina útaf laginu, ekki leikmenn botnliðs deildarinnar, sem hefur ekki unnið leik.

Gróttumenn neituðu algerlega að gefast upp og markvörður þeirra, Lárus Helgi Ólafsson, á kostum og varði alls 18 skot, þar af tvö víti en hann vildi frekar ræða hvað liðið hefur bætt sig. „Við vorum agaðir í vörninni með flottan sóknarleik og þó einhver atriði hafi ekki fallið með okkur töpum við með þremur mörkum gegn Íslandsmeisturunum svo ég held að ég geti sagt að þetta hafi verið óheppni hjá okkur. Það getur verið að það hafi fylgt þeim smávegis meistaraheppni en með smá heppni hjá okkur hefðum við örugglega tekið stig hér í kvöld,“ sagði Lárus Helgi eftir leikinn. „Við erum að bæta okkur og það er frábært enda er stefnan að bæta sig í hverjum leik, það er stígandi í þessu hjá okkur og þó við höfum tapað stórt í síðasta leik fannst mér við samt spila vel í honum. Það er nóg eftir af mótinu, þó margir hafi dæmt okkur úr leik er allt gott og blessað með það en okkur finnst nóg eftir og ætlum að plokka stig.“

Við annan tón kvað hjá FH. „Við spiluðum ekki vel, það er óhætt að segja það og í raun ótrúlega lélega,“ sagði Andri Berg Haraldsson, sem skoraði 5 mörk fyrir FH, og að góð byrjun hefði slegið liðið útaf laginu. „Það hafði þau áhrif að við hættum og spiluðum eftir það á hálfum hraða, hrukkum reyndar í gang í byrjun seinni hálfleiks en það dugði bara í fimm mínútur, þá duttum við aftur niður. Það var rætt um vanmat fyrir leikinn en við getum ekki vanmetið neitt lið því ef maður er ekki á fullu verður þetta bara ströggl og við vorum bara heppnir. Við ætluðum að koma okkur í rétta stemmingu fyrir leikinn gegn Haukum en náðum því ekki alveg.“

Grótta – FH 24:27

Seltjarnarnes, úrvalsdeild karla, N1 deildin, fimmtudag 15. des. 2011.

Gangur leiksins : 0:3, 1:6, 2:6, 5:6, 5:8, 7:8, 7:10, 9:12, 11:15, 12:15 , 13:15, 13:19, 14:20, 18:21, 19:23, 21:23, 22:25, 24:25, 24:27 .

Mörk Gróttu : Þráinn Orri Jónsson 7, Hjálmar Þór Arnarson 5, Benedikt Reynir Kristinsson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 3/2, Davíð Örn Hlöðversson 2, Þorgrímur Smári Ólafsson 2, Kristján Orri Jóhannsson 1, Aron Valur Jóhannsson 1.

Varin skot : Lárus Helgi Ólafsson 18/2 (þar af 4/1 til mótherja).

Utan vallar : 4 mínútur. Guðfinnur Kristmannsson fékk rautt spjald að leik loknum.

Mörk FH : Ólafur Gústafsson 7, Andri Berg Haraldsson 5, Baldvin Þorsteinsson 4, Sigurður Ágústsson 3, Ari Magnús Þorgeirsson 3, Hjalti Pálmason 2, Þorkell Magnússon 2/1, Atli Rúnar Steinþórsson 1.

Varin skot : Pálmar Pétursson 5, Daníel Freyr Andrésson 2.

Utan vallar : 2 mínútur.

Dómarar : Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson.

Áhorfendur : 208.