Flugslys Ítarlega var fjallað um flugslysið í Ljósufjöllum í Morgunblaðinu á sínum tíma. Út er komin bók með frásögnum af slysinu hörmulega.
Flugslys Ítarlega var fjallað um flugslysið í Ljósufjöllum í Morgunblaðinu á sínum tíma. Út er komin bók með frásögnum af slysinu hörmulega.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Óttar Sveinsson. Útkall ehf. gefur út. 219 bls.

Í Útkallsbókinni Ofviðri í Ljósufjöllum segir frá flugslysinu á Snæfellsnesi í apríl 1986 þegar fimm fórust með TF-ORM á leiðinni frá Ísafirði til Reykjavíkur. Tveimur mönnum var bjargað eftir nánast ómannlegar raunir. Þeir biðu björgunar í opnu flaki vélarinnar í hvassviðri og skafrenningi, í tíu og hálfa klukkustund.

Mikið var fjallað um slysið í fjölmiðlum á sínum tíma, meðal annars í ítarlegum frétta- og viðtalsgreinum í Morgunblaðinu. Margir þekkja til atburða. Þá er sagt frá úrslitum mála í inngangi bókarinnar. Er því ekki við því að búast að veruleg spenna byggist upp í huga lesanda. Þá bæta frásagnir í bókinni litlu við samtímaheimildir um aðdraganda slyssins og björgun. Styrkur hennar liggur á öðrum sviðum.

Höfundurinn velur þá leið að láta þá sem lifðu, aðstandendur, björgunarmenn og starfsmenn flugfélagsins segja söguna. Rauði þráðurinn liggur í gegnum björgunarsveitarmanninn Guðlaug Þórðarson. Í nokkurs konar inngangskafla er sagt frá slysi sem varð til þess að hann gekk síðar í björgunarsveit. Sagt er ítarlega frá björgunarstörfum á Snæfellsnesi og Guðlaugur er alltaf skammt undan.

Í gegnum þessar frásagnir fæst góð innsýn í líf fórnfúsra björgunarmanna, ekki aðeins björgunarsveitarmanna heldur einnig annarra sem koma að slíkum aðgerðum, svo sem læknisins, flugmanna Gæslunnar, stjórnenda björgunarinnar og staðkunnugra manna úr sveitinni. Það gefur bókinni göfugt inntak.

Þá fást með frásögnum aðstandenda og starfsmanna flugfélagsins upplýsingar um þeirra erfiðu aðstæður og tilfinningar á meðan beðið var eftir fregnum af afdrifum fólksins. Þau ásamt þeim tveimur mönnum sem lifðu slysið af, Kristjáni Jóni Guðmundssyni og Pálmari S. Gunnarssyni, gefa ríkulega af sér í frásögnum sínum.

Höfundurinn endurtekur mikið staðreyndir og ummæli, stundum margsinnis, þótt það sé skrifað úr munni mismunandi viðmælenda. Ofanrituðum finnst það oft óþarfi og raunar þreytandi við lestur bókarinnar.

Þá sleppir höfundur því að rekja niðurstöður álits rannsóknarnefndar flugslysa um ástæður slyssins sem og ábendingar nefndarinnar um hvaða lærdóm megi af því draga - og hvernig úr þeim ábendingum var unnið. Með því að taka það með hefði fengist betri heildarmynd af atburðum. Þá hefði vafalaust mátt bæta upplifun lesenda með betri kortum og teikningum.

Í heildina má segja að í bókinni um Ljósufjallaslysið sé einlæg frásögn af örlagaríkum atburðum í lífi margra.

Helgi Bjarnason

Höf.: Helgi Bjarnason