Anna Sigurbjörg Tryggvadóttir fæddist í Gröf í Eyjafjarðarsveit 12. ágúst 1927. Hún lést 3. desember sl.

Foreldrar hennar voru Tryggvi Stefánsson frá Eyrarlandi í Öngulstaðahreppi, f. 1887. d. 1968, og Guðrún Sigurrós Jónsdóttir, f. í Laugalandi á Þelamörk 1889, d. 1966. Systur Önnu voru þrjár, elst þeirra var Ingibjörg, f. 1916, d. 1992, hennar maður var Jón Bjarnason, f. 1910, d. 1991, bóndi í Garðsvík. Þau eignuðust sex börn. Hrefna f. 1918, d. 1996. Hennar maður var Steinþór Egilsson, f. 1920, d. 1966. Þau eignuðust fjögur börn. Sigríður, f. 1923, d. 2007. Hennar maður var Ragnar Pálsson, f. 1923, d. 2011. Þau eignuðust 12 börn.

Anna Sigurbjörg sleit barnsskónum í Gröf, þar sem hún ólst upp við þeirra tíma aðstæður, í torfbænum á Gröf, og naut þar leiðsagnar og kennslu sem þá bauðst. Þegar hún var 12 ára flutti fjölskyldan til Akureyrar og þar lauk hún sinni skólagöngu og útskrifaðist sem gagnfræðingur þar í bæ. Eftir skólagöngu starfaði hún hjá Kaupfélagi Eyfirðinga alla sína starfsævi, fyrstu árin í blómabúðinni en eftir það í vefnaðarvörudeildinni. Anna bjó á Akureyri alla tíð frá 12 ára aldri, hélt heimili með foreldrum sínum, þar til þau létust, en ein eftir það, lengst af á Sólvöllum 17. Hún var ógift og barnlaus.

Útför Önnu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 16. desember 2011, kl. 13.30.

Anna móðursystir mín er látin 84 ára að aldri. Þegar hún fékk heilablóðfall fyrir röskum tveimur árum breyttist líf hennar mikið. Í einni svipan þurfti þessi duglega og sjálfstæða kona á umönnun að halda og eftir dvöl á sjúkrahúsi lá leiðin á dvalarheimilið Hlíð á Akureyri. Hún náði aldrei fyrri heilsu eftir þetta og dvaldist hún á Hlíð þar til yfir lauk. Hún var yngst fjögurra systra sem allar eru látnar.

Þegar systir hennar Sigríður, sem var móðir mín, lést í apríl 2007 missti Anna mikið. Þær systur voru mikið samvistum, ekki síst síðustu árin, og tóku oft í spil sér til mikillar ánægju ásamt Tryggva bróður mínum sem lést í apríl 2010. Anna sagði oft eftir lát mömmu: „Mikið óskaplega sakna ég hennar Siggu systur.“

Allar voru þær systur yndislegar, glaðværar og sómakonur í hvívetna.

Anna var stórglæsileg kona og ávallt vel klædd, skapgóð, létt í lund og stutt í hláturinn. Gestrisin með afbrigðum og alltaf jafn ánægjulegt og gaman að hitta hana og spjalla. Ég minnist hennar með hlýju, væntumþykju og virðingu.

Elsku Anna mín, þín verður sárt saknað, en ég held líka að þú hafir verið hvíldinni fegin og að vel verði tekið á móti þér á nýjum stað af foreldrum, systrum og öðrum ástvinum sem og vinkonum þínum sem farnar eru. Hafðu þökk fyrir allt og blessuð sé minning þín.

Erling Ragnarsson.

Þá er hún Anna frænka farin frá okkur. Hún kvaddi þegar jólaljósunum fór að fjölga og ég fór að hugsa um síðustu jólaheimsókn okkar fjölskyldunnar til hennar. Við höfðum þann sið síðustu árin að færa henni jólakortið á aðfangadag. Það var allt svo fágað og fínt hjá henni og jólaskrautið á sínum stað. Við sátum um stund yfir kaffi, konfekti og í notalegheitum. Það var sería uppi við loftið, allt eins og hefði verið notuð reglustika við uppsetninguna, og jólaóróarnir með jöfnu millibili; svo jafnt var það. Þegar spurt var hver hefði hjálpað henni við að hengja allt upp varð hún bara hissa. „Nú ég fór bara með eldhúsborðið inn í stofu og stóð uppi á því,“ sagði þessi 81 árs gamla elska.

Það fór nú reyndar svo að skrautið tókum við niður eftir jólin því skömmu síðar lærbrotnaði hún og við tók næstum þriggja ára ferli með veikindum og heilsuleysi. Hún tók því með miklu jafnaðargeði sem að höndum bar, kvartaði aldrei og var þakklát allri aðstoð sem hún fékk eftir það, hvort sem það var á Kristnesspítala, FSA eða á Dvalarheimilinu Hlíð. Anna hafði oft orð á því hvað allt þetta starfsfólk væri yndislegt og því var ég sammála. Deildin hennar, Beykihlíð, varð hennar heimili í tæp tvö ár. Þar er einstakt fólk við störf sem öllum sýnir hlýju og virðingu og hafi það þökk fyrir.

Anna frænka var yngsta systir mömmu minnar Ingibjargar, en á milli þeirra voru tvær aðrar systur, Hrefna og Sigríður. Alltaf var mjög hlýtt á milli þeirra systra allra. Þær höfðu mikið yndi af spilamennsku og tóku í spil ef færi gafst. Anna var engin undantekning þar og spilaði við Siggu systur sína og Tryggva son hennar daglega eftir að hún hætti að vinna. Þær eru óteljandi minningarnar um þessa yndislegu konu, sem alltaf var svo fín og vel til höfð. Allt sem hún gerði var af nákvæmni og vandvirkni og hún talaði svo fallega um alla. Heimilið var hlýlegt og hún þurfti aldrei aðstoð við þrif. „Þetta er líkamsræktin mín,“ sagði hún; aldrei rykkorn þar. Jólakortin hennar voru listaverk, saumuð með silki og svo fallega skrifuð.

Tvisvar fór hún með okkur stórfjölskyldunni til Danmerkur að heimsækja Bjarna bróður, þegar hann varð fimmtugur og síðar á fjölskyldumót þar sem líka var fólkið okkar frá Noregi. Með okkur var líka Dodda systurdóttir hennar, sem var henni mjög kær. Anna fylgdist ótrúlega vel með okkur öllum, börnum og barnabörnum systra sinna og átti líka vini í langömmubörnum þeirra. Anna átti nokkrar afbragðsgóðar vinkonur sem hún hafði alltaf gott samband við, sumar frá unglingsárum. Anna átti heima í sama húsinu í 50 ár og að eigin sögn átti hún heimsins bestu nágranna, sem sumir fluttu um leið og hún í húsið. Nú er hún farin frá okkur og ég sakna hennar. Að geta ekki sest niður hjá henni á Hlíð með kaffibolla og heyra öll fallegu orðin hennar þegar hún kvaddi mig um leið og ég fór. Hvíl í friði elsku frænka og guð geymi þig.

Þórey (Tóta), Guðmundur, Sigríður Íris og Sigrún Björg.

Í huga okkar systkina er aðeins til ein Anna frænka og nú hefur hún kvatt þennan heim. Við minnumst Önnu frænku með mikilli hlýju og það er auðvelt að rifja upp fallega brosið hennar og smitandi hláturinn. Anna ólst upp með systrum sínum þremur sem allar voru jafnelskulegar og það var kært á milli þeirra. Anna flutti með foreldrum sínum á Sólvellina og þaðan eigum við öll góðar minningar. Heimili Önnu var snyrtilegt og notalegt, hún átti heilmikið af blómum og á miðju stofugólfinu stóð lengi risastórt pálmatré sem hafði þann mátt að þegar setið var undir því var auðvelt að ferðast í huganum til fjarlægra landa. Annað á heimilinu vakti athygli barnsaugans en það var ótrúlega falleg kristalsljósakróna sem var lengi vel það fegursta sem við systurnar höfðum augum litið. Já, það voru sko ekki svona flott demantaljós í Skagafirðinum.

Okkur þótti Anna vera mjög veraldarvön, hún hafði ferðast út fyrir landsteinana og fylgdist með tískunni. Það var gaman að heimsækja Önnu frænku, hún var viðræðugóð og fylgdist með fréttum og öllu sínu fólki. Í gegnum tíðina var hún mjög dugleg að koma og gleðjast með okkur við öll möguleg tækifæri og tók alltaf með sér góða skapið og fallegan varalit. Anna fór ung að vinna hjá Kaupfélaginu og starfaði þar í 49 ár. Þegar við áttum erindi til Akureyrar var alltaf gaman að kíkja í vinnuna til Önnu og kasta á hana kveðju. Þær voru ófáar ferðirnar sem við fórum í rúllustiganum í Kaupfélaginu á meðan Anna sýndi mömmu ýmsan varning sem var þar til sölu.

Fyrir rúmum þremur árum var haldið lítið ættarmót í Danmörku. Anna var þar aldursforsetinn og hrókur alls fagnaðar og erum við þakklát fyrir góðar minningar frá dvöl okkar ytra.

Við eigum eftir að sakna Önnu frænku.

Hafðu þökk fyrir allt elskulega frænka okkar.

Jón Ingi, Anna Elísabet, Ólafur Gunnar, Inga Heiða og fjölskyldur.