Ævintýraheimur Rósa Þorsteinsdóttir rannsóknarlektor við Árnastofnun.
Ævintýraheimur Rósa Þorsteinsdóttir rannsóknarlektor við Árnastofnun.
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Sagan upp á hvern mann nefnist bók eftir Rósu Þorsteinsdóttur, rannsóknarlektor hjá Árnastofnun, sem nýverið kom út hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Sagan upp á hvern mann nefnist bók eftir Rósu Þorsteinsdóttur, rannsóknarlektor hjá Árnastofnun, sem nýverið kom út hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Í bókinni er fjallað um heimssýn í ævintýrum og sagnasjóðum átta Íslendinga sem valdir voru úr hópi þeirra fjölmörgu sem sagt hafa ævintýri sín og sögur inn á segulbönd sem varðveitt eru í þjóðfræðisafni stofnunarinnnar.

Að sögn Rósu hefur hún unnið við þjóðfræðisafnið frá árinu 1994 og fékk fljótlega áhuga á ævintýrum. „Við búum svo vel hérlendis að eiga upptökur af ævintýrum, en í flestum nágrannalöndum okkar hafa fræðimenn skoðað ævintýrin einvörðungu sem ritaða texta,“ segir Rósa og bendir á að lengi hafi verið talið að ævintýri væru í afar föstum skorðum og alltaf sögð með sama hætti. „En þegar þjóðsagnafræðingar fóru að beina sjónum sínum að sagnafólkinu sjálfu kom í ljós að svo er ekki og íslensku upptökurnar staðfesta að sögurnar taka breytingum í hvert sinn sem þær eru sagðar.“

Útrás fyrir drauma og þrár

„Önnur tilgáta erlendra fræðimanna gengur út á að ævintýri séu sagnagrein fátæka fólksins, sem fái útrás fyrir drauma sína og þrár í ævintýrunum,“ segir Rósa og tekur fram að rannsókn hennar hafi ekki staðfest þetta nema að hluta. „Þannig kom það mér á óvart að allar konurnar sex sem ég valdi voru aldar upp á vel stæðum sveitaheimilum og hlutu meiri menntun en algengt var með stúlkur sem fæddar voru um aldamótin nítjánhundruð. Karlarnir tveir voru hins vegar aldir upp í mikilli fátækt og gafst ekki færi á skólagöngu. Það er ljóst að öll hefðu þau viljað mennta sig meira ef tækifæri hefði gefist, þannig að kannski má segja að ævintýrin séu sagnagrein þeirra sem hefðu viljað verða eitthvað meira en aðstæður þeirra buðu upp á,“ segir Rósa. Tekur hún fram að val hennar á sagnafólki hafi stjórnast af því hversu mörg hljóðrituð ævintýri voru til með viðkomandi, en oftast voru 10-20 ævintýri til hljóðrituð með hverjum og einum sagnamanni bókarinnar.

Meðal þess sem Rósa leitar svara við í bók sinni er hvort náttúrlegt eða félagslegt umhverfi endurspeglist í ævintýrunum sem sagnafólkið velur að segja. Æviskeið fólksins var því kannað og sagnasjóður hvers og eins gaumgæfður. „Niðurstaðan er sú að ævintýrin geta endurspeglað lífsviðhorf, gildismat og lífsreynslu fólksins sem segir þau og til þess að komast nær merkingu ævintýranna skiptir verulegu máli að þekkja ævi sagnafólksins sem segir þau og umhverfið sem það bjó í,“ segir Rósa.

Spurð hvort ævintýrin beri þess merki að vera sögð af Íslendingum segir Rósa að þó yfirleitt megi tengja ævintýrin við alþjóðleg sagnaminni þá hafi þau langoftast fengið á sig íslenskan blæ. „Þannig minnir konungsríkið á stórbýli þar sem kotið er hjáleigan og umhverfið verður allt mjög kunnuglegt,“ segir Rósa og tekur fram að allir hafi gott af því að lesa og hlusta á ævintýri. Þess má geta að úrval sagnanna er prentað í bókinni, en einnig er hægt að hlusta á sögurnar á vefnum:www.arnastofnun.is/saganuppahvernmann.

Þjóðfræðisafnið
» Í ársbyrjun 2008 mátti finna 475 upptökur af ævintýrum í þjóðfræðisafni Árnastofnunar.
» Ævintýrin voru í frásögn 155 einstaklinga.
» Alls voru 396 ævintýri sögð af konum og 79 sögð af karlmönnum.
» Hallfreður Örn Eiríksson, Jón Samsonarson og Helga Jóhannsdóttir söfnuðu stærstum hluta safnsins á árunum 1963-75.