Þjóðin er farin að þekkja parið Jóhönnu og Steingrím og veit alveg hvernig það er

Ríkisútvarpið hefur forystu fyrir því að enn er reynt að ala á ranghugmyndum um að EFTA-dómstóllinn, sem forystumenn ESA monta sig af að hafa í vasanum, sé úrskurðaraðili í Icesave-deilunni. Þar deila aðilar og stofnanir með starfsvettvang og heimilisfesti hjá þremur sjálfstæðum þjóðum. Enginn þessara aðila hefur beint nefndu máli til ESA. Stofnunin tók málið að sér að eigin frumkvæði og var Norðmaðurinn sem í forystu var lykilmaður í þeirri gjörð og varð sjálfum sér og þeirri stofnun til álitshnekkis með glannalegum og óábyrgum yfirlýsingum.

Íslenskum stjórnvöldum, og utanríkisráðuneyti Íslands sérstaklega, bar að fordæma þá framgöngu alla. Það gerðu þau þó ekki. Það var vegna þess að hótanir og oflæti hins norska formanns ESA hentaði þeim, sem liður í herferð óttans gegn íslensku þjóðinni í Icesave-málinu. Fólk finnur til flökurleika þegar það heyrir Steingrím J. Sigfússon og Jóhönnu Sigurðardóttur segja að þau muni sjá um „varnirnar“ fyrir Íslands hönd í þeim skrípaleik sem ESA-stofnunin hefur stofnað til. Þau hafa frá upphafi komið fram sem baráttumenn andstæðinga Íslands í málinu.

Það er hárrétt sem fram kemur í orðum Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, þegar hann fjallar um þetta mál: „Það er með ólíkindum að stjórnmálamenn sem stóðu að samningunum um Icesave skuli sitja áfram á ráðherrastólum og tala núna eins og þeir séu best til þess fallnir að verja málstað Íslands fyrir EFTA-dómstólnum. Allar tilvitnanir í þessa menn fyrir dómstólnum úr umræðum um Icesave-málið fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl 2011 verða til þess að veikja málstað Íslands.“ Það blasir við að ályktun Björns Bjarnasonar er rétt.

Og Steingrímur J. Sigfússon bætti svo gráu ofan á svart þegar hann sagði að auk þess að helsta varnarliðið í þessum Icesave-snúningi yrði hann og Jóhanna þá yrði yfirstjórn málsins í höndum utanríkisráðherrans Össurar Skarphéðinssonar og hans manna! Allir vita að það lið er það leiðitamasta sem Evrópusambandið kannast við á Íslandi og eru þó Jóhanna og Steingrímur meðtalin.

Lengi virðist vont geta versnað þegar þessi ólánsríkisstjórn á í hlut. Það er þó huggun harmi gegn að raunverulegt dómsmál um Icesave, verði af því, fer ekki fram á þessu leiksviði. Endi málið hjá alvöru dómstólum, sem ekkert bendir ennþá til að það muni gera, þá verða kröfuþjóðirnar að stofna til þess og beina kröfum sínum að íslenskum yfirvöldum og útkljá málið fyrir íslenskum dómstólum. Kröfuþjóðirnar hafa enn ekki orðað slíkt opinberlega í hinu langa og leiðinlega ferli. Það segir alla söguna.