Alþingi Mörður Árnason og Oddný G. Harðardóttir fylgjast með.
Alþingi Mörður Árnason og Oddný G. Harðardóttir fylgjast með. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kristján Jónsson kjon@mbl.is Umræðum um frumvarp fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum, bandorminn, var frestað aðfaranótt fimmtudags en haldið áfram í gærmorgun.

Baksvið

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Umræðum um frumvarp fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum, bandorminn, var frestað aðfaranótt fimmtudags en haldið áfram í gærmorgun. Ætlunin er að hlé verði gert á þingstörfum í dag vegna jólanna en óvíst er hvort sú áætlun gangi eftir. Þótt bandorminum væri hleypt í gegnum fyrri umræðu án málþófs eru meira en tveir tugir annarra mála enn óafgreiddir, oft er um mikilvæg mál að ræða.

Forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sagði í gær að vonir stæðu til að takast myndi að standa að mestu við starfsáætlunina. „En það á bara eftir að koma í ljós. Þingmenn eru tala saman, hafa verið að því í gær og í nótt, þannig gengur þetta yfirleitt fyrir sig, menn eru að fikra sig að samkomulagi,“ sagði Ásta Ragnheiður. Hún sagði aðspurð að stundum hefðu horfurnar fyrir jólafrí verið verri en núna.

Oft verður nokkur urgur meðal stjórnarandstæðinga ef þeim finnst að ekki sé tekið nægilegt tillit til sjónarmiða þeirra. Og svo virðist vera núna. Hvað segja þingmenn andstöðunnar?

„Það er búið að svíkja svo mörg loforð að sumir eru farnir að nota nýtt hugtak, raðsvik,“ sagði einn þeirra. Heimildarmenn segja að það verði nánast ómótstæðileg freisting fyrir þá að egna upp deilur meðal stjórnarliða og tjá sig ítarlega um tillögu er gengur út á að gerðar verði hljóðupptökur af öllum ríkisstjórnarfundum.

Um var að ræða mikið hjartans mál Hreyfingarinnar en einnig Þráins Bertelssonar, þingmanns VG. Hann gerði samþykkt tillögunnar að skilyrði fyrir því að samþykkja fjárlögin. En nú hafa stjórnarflokkanrir heykst á að framkvæma hugmyndina, af ýmsum ástæðum.

Bent hefur verið á að verði hugmyndin að veruleika sé líklegt að ráðherrar muni forðast að ræða ýmis viðkvæm trúnaðarmál á sjálfum fundunum. Það verði gert á leynilegum fundum á göngunum.

Langur og umdeildur ormur

Bandormur Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra er að venju langur og umdeildur. Frumvarpinu er ætlað að tryggja að tekjuöflun ríkissjóðs verði í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár. Þessum breytingum má skipta í fjóra meginflokka.

Í fyrsta lagi breytingar sem tengjast yfirlýsingu stjórnvalda sem ætlað var að liðka fyrir gerð kjarasamninga í maí á þessu ári. Í öðru lagi eru sérstakar tekjuöflunaraðgerðir sem ríkisstjórnin hyggst nota til að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum á næstu árum.

Í þriðja lagi er svo um að ræða hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur frumvarpsins og í fjórða lagi breytingar af ýmsu öðru tagi.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, sagði erfitt að spá um framhaldið og ekki hefðu verið gerðir neinir samningar við stjórnarflokkana um að tryggja að þingfrestun yrði á tilsettum tíma í dag. „Allt getur gerst en mér finnst stjórnarliðar ekki alltaf átta sig á því að það þarf tvo til að semja þótt við séum sveigjanleg og viljum greiða fyrir þingstörfum. Við fengum nokkrar breytingar á bandorminum í gegn og þær fara í nefnd og við erum enn að reyna að vinna í þessu. En skattaumræðan heldur áfram og fjársýsluskatturinn er afar umdeildur.“