Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Ekki var ljóst í gærkvöldi hvenær þingsályktunartillaga um að fela saksóknara Alþingis að draga til baka ákæru á hendur Geir H.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Ekki var ljóst í gærkvöldi hvenær þingsályktunartillaga um að fela saksóknara Alþingis að draga til baka ákæru á hendur Geir H. Haarde fyrir landsdómi yrði lögð fram á Alþingi eða hverjir yrðu meðflutningsmenn Bjarna Benediktssonar að málinu. Bjarni telur að staðan í þinginu hafi breyst frá því málshöfðun var samþykkt.

Þingmenn úr fjórum flokkum hafa lýst yfir stuðningi við málið og áhuga á að gerast meðflutningsmenn, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Málið var rætt í þingflokkunum í gær. Andstaða var við það í þingflokki Samfylkingarinnar að þingmenn flokksins gerðust meðflutningsmenn. Niðurstaða þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs varð sömuleiðis sú að þingmenn flokksins stæðu ekki að þessu máli. Björn Valur Gíslason, formaður þingflokksins, sagði aðspurður að flokkurinn bannaði ekki þingmönnum að styðja mál eða flytja með öðrum.

Þeir sem unnið hafa að málinu telja að komin sé upp ný staða um stuðning við kæruna sem samþykkt var fyrir rúmu ári. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur komið fram í samtölum þingmanna að sífellt fleiri muni veita tillögu um afturköllun málsins stuðning eða hlutleysi.

Þar er meðal annars rætt um tiltekna þingmenn Framsóknarflokksins sem greiddu atkvæði með málshöfðun og þingmenn VG sem yfirgefið hafa flokkinn eða voru fjarverandi. Á móti hefur Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, sem greiddi atkvæði á móti málshöfðun, lýst því yfir að ekki sé rétt að stöðva málið.

„Ég tel augljóst að þingið hljóti að bregðast hratt og örugglega við. Ég hefði ekki unnið að málinu nema ég teldi aðstæður á Alþingi gjörbreyttar,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Ekki var búið að leggja tillöguna fram í gærkvöldi, þegar Morgunblaðið hafði síðast fréttir af málinu, og ekki gengið frá því hverjir yrðu meðflutningsmenn. 4