Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Frökkum var í gærkvöld úthlutað gestgjafahlutverkinu í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik árið 2017 og Þjóðverjar hrepptu lokakeppni HM kvenna sama ár.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Frökkum var í gærkvöld úthlutað gestgjafahlutverkinu í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik árið 2017 og Þjóðverjar hrepptu lokakeppni HM kvenna sama ár. Frakkar sigruðu Dani í atkvæðagreiðslu um karlakeppnina á fundi IHF í Sau Paulo í Brasilíu en Þjóðverjar voru einir um hituna hjá konunum.

Frakkar ætla að bjóða upp á tíu glæsilega keppnisstaði á karlamótinu. Tveir þeirra munu taka mun fleiri áhorfendur en Palais Ominsport höllin í Paris-Bercy sem til þessa hefur verið flaggskipið í franska handboltanum.

Rúmar 29 þúsund áhorfendur

Flestir áhorfendur eiga að komast fyrir í nýrri höll í Lille sem á að taka hvorki meira né minna en 29 þúsund áhorfendur og áætlað er að hún verði tilbúin næsta haust.

Þá eiga 25 þúsund manns að geta séð leiki í Nanterre en þar verður spilað á innanhúss rugby-leikvangi.

Paris-Bercy höllin verður endurbætt á næstu árum og á að taka 17 þúsund áhorfendur í stað 14 þúsunda þegar keppnin fer fram.

Í Lyon verður leikið í nýrri 15 þúsund manna höll en hinir sex keppnisstaðirnir rúma 10 þúsund áhorfendur hver. Þeir eru í Aix, Bordeaux, Dunkerque, Montpellier, Nantes og Orleans.

Höllin í Montpellier er sú eina sem er endanlega tilbúin fyrir keppnina en endurbætur á hinum keppnisstöðunum verða í gangi næstu fjögur til fimm árin. Íslenska landsliðið lék einmitt leiki sína í riðlakeppni HM í Montpellier þegar keppnin fór síðast fram í Frakklandi árið 2001.