Sveinn Jónsson frá Ytra-Kálfsskinni hefur skrifað bók um lífshlaup Steingríms Eyfjörð Einarssonar (1894-1941), sem lengi var læknir á Siglufirði.

Sveinn Jónsson frá Ytra-Kálfsskinni hefur skrifað bók um lífshlaup Steingríms Eyfjörð Einarssonar (1894-1941), sem lengi var læknir á Siglufirði. Í kverinu eru flestar þær vísur sem fundist hafa og kennir þar ýmissa grasa, þar á meðal er heilræði:

Ei skal týndan gimstein gráta

né góna á heimsins lesti og böl.

Til hvers er að lifa og láta

lífið verða sér að kvöl?

Í bókinni er þessi saga: „Eitt sinn á sínum unglingsárum var Steingrímur háseti á „Talismann“, en þá var skipstjóri á skipinu Jón Halldórsson. Er skipið sigldi inn í fjarðarkjaft Eyjafjarðar kom Steingrímur niður í káetu til skipstjóra og segir:

Vel blés Kári voðir í

vilja eftir þínum.

Kátir erum komnir í

kjaft á nafna mínum.“

Og hún er skemmtileg próflokasagan: „Eitt sinn er Steingrímur og félagar hans vildu í sameiningu halda upp á próflok með pompi og prakt og þá vantaði a.m.k. eina flösku og á þeim tíma þurfti resept til að fá slíkan munað. Sendi þá læknirinn einn skólabróðurinn með eftirfarandi ljóð:

Á hendur fel þú honum

sem hefur apótek

og allt sem átt í vonum

og örvar líf og þrek.

Hann vanur er að brynna

og veit hvað þorsti er

og flösku mun hann finna

og fyll'ana handa þér.

Ekki fékkst þó flaskan strax, en apótekarinn skipaði þeim öllum til fundar við sig. Þangað fóru þeir með hálfum huga – en er þeir komu til hans beið þeirra dúkað borð og hélt hann þeim heljar veislu þar sem nóg vín var í fleiri flöskum.“

Pétur Blöndal pebl@mbl.is