Minkaskinn Skinn seldust vel á fyrsta skinnauppboði vetrarins.
Minkaskinn Skinn seldust vel á fyrsta skinnauppboði vetrarins. — Morgunblaðið/Ómar
Góð sala var í minkaskinnum á fyrsta loðskinnauppboði sölutímabilsins í Kaupmannahöfn í gær og verð á svipuðu róli og í fyrra. Byrjunin þykir lofa góðu fyrir framhaldið í vetur.

Góð sala var í minkaskinnum á fyrsta loðskinnauppboði sölutímabilsins í Kaupmannahöfn í gær og verð á svipuðu róli og í fyrra. Byrjunin þykir lofa góðu fyrir framhaldið í vetur.

„Þetta fer bara vel af stað, það er 100% sala og markaðurinn virðist vera í jafnvægi,“ sagði Einar E. Einarsson, ráðunautur Bændasamtakanna í loðdýrarækt. „Verðið var svo hátt í fyrra að menn trúðu því ekki að það héldist svona hátt lengi. Þeir hafa frekar átt von á að verðið leiti eitthvað niður á við en eftirspurnin er gríðarleg.“

Uppboðið hófst í fyrradag með sölu á refaskinnum, chinchilla og öðrum sjaldgæfari skinnategundum. Í gærmorgun var byrjað að bjóða upp minkaskinn og verður því haldið áfram þar til í kvöld. Einar sagði að högnaskinn hefðu hækkað lítillega en feldir af læðum lækkað lítið eitt. Segja megi að verðið sé stöðugt.

Boðnar eru til sölu 1,4 milljónir minkaskinna á uppboðinu. Af þeim voru ekki nema tvö til þrjú þúsund íslensk minkaskinn, að því er Einar taldi. Þetta var fyrsta og jafnframt minnsta uppboð sölutímabilsins. Eftir er að halda fjögur uppboð hjá Copenhagen Fur á þessu sölutímabili og má vænta þess að meira verði af íslenskum minkaskinnum á þeim uppboðum sem eftir eru.

gudni@mbl.is