Þessi „ljómandi“ góða jólaplata kom eiginlega inn á borð til mín eins og þruma úr heiðskíru lofti eða eigum við kannski frekar að segja að hún hafi fallið á það ljúflega, líkt og ókennileg en býsna snotur snjóflaga?

Þessi „ljómandi“ góða jólaplata kom eiginlega inn á borð til mín eins og þruma úr heiðskíru lofti eða eigum við kannski frekar að segja að hún hafi fallið á það ljúflega, líkt og ókennileg en býsna snotur snjóflaga?

Hinn lítt þekkti Ólafur Már Svavarsson leggur hér upp með ljúfa og hátíðlega jólaplötu sem skírskotar skammlaust og mjög svo meðvitað til fortíðarinnar. Þegar best lætur svífa þeir kappar Bing Crosby og Nat King Cole ljóslifandi yfir hátíðlegum vötnum og Ólafi tekst að knýja fram þessa indælu, hjúfrandi stemningu sem við þekkjum úr þessum allra klassískustu amerísku jólalögum. Ólafur styðst þó við ný íslensk lög – sem er svo rúllað inn í þennan fortíðarpakka – og hafi hann þökk fyrir að koma með ný lög í stað þess að rölta um þessi gamalkunnugu. Þetta er plötunni mikill styrkur.

Platan dalar þó þegar þessari stemningu sleppir, lög eins og „María og Jósep“ sem hann syngur ásamt Valgerði Guðnadóttur og „Leiðin heim“ passa t.a.m. einkennilega við þennan fortíðarramma sem er utan um flest lögin hérna.

Heilt yfir er þetta þó hið frambærilegasta verk og vel það. Ekkert er til sparað í hljóðfæraleik og umbúnaði öllum og ég spái því að Ólafur eigi ekki eftir að vera svo lítt þekktur í kjölfar hennar.

Arnar Eggert Thoroddsen

Höf.: Arnar Eggert Thoroddsen