Ernir Hrafn Arnarson
Ernir Hrafn Arnarson
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Þýsku handknattleiksfélögin Emsdetten og Düsseldorf eru í viðræðum þessa dagana um vistaskipti Ernis Hrafns Arnarsonar, sem hefur leikið með Düsseldorf það sem af er þessu tímabili. Bæði liðin spila í þýsku 2.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Þýsku handknattleiksfélögin Emsdetten og Düsseldorf eru í viðræðum þessa dagana um vistaskipti Ernis Hrafns Arnarsonar, sem hefur leikið með Düsseldorf það sem af er þessu tímabili.

Bæði liðin spila í þýsku 2. deildinni, næstefstu deildinni þar í landi, en eru í ólíkri stöðu. Emsdetten er í sjöunda sæti og skammt frá því að blanda sér af alvöru í baráttuna um sæti í efstu deild. Düsseldorf er hinsvegar í fallsæti, er í sautjánda sæti af 20 liðum og glímir auk þess við mikla fjárhagsörðugleika.

Ernir Hrafn, sem er 25 ára gamall og leikur sem örvhent skytta, kom til Düsseldorf frá Val í sumar og hefur sjálfur átt góðu gengi að fagna. Hann er markahæsti leikmaður liðsins í deildinni til þessa með 68 mörk í 15 leikjum og er annar markahæstur af Íslendingunum í deildinni, á eftir Arnóri Þór Gunnarssyni sem hefur skorað 92 mörk fyrir Bittenfeld.

Staðarblaðið Emsdettener Volkszeitung skýrði frá viðræðum félaganna í gær en þar kemur fram að forráðamenn Emsdetten vonuðust eftir því að geta teflt Erni fram strax á morgun þegar liðið mætir toppliðinu Minden í stórleik.

Frank Thünemann, framkvæmdastjóri Emsdetten, sagði hinsvegar við blaðið að það væri útilokað þar sem Düsseldorf hefði enn sem komið er farið fram á of háa greiðslu fyrir Erni. „Það gengur ekki fyrir leikinn gegn Minden en við höldum viðræðunum áfram,“ sagði Thünemann.

Íslendingar hafa komið mikið við sögu hjá Emsdetten en Fannar Þór Friðgeirsson, fyrrum samherji Ernis hjá Val, er þar í stóru hlutverki sem rétthent skytta. Patrekur Jóhannesson þjálfaði liðið síðasta vetur, Hreiðar Levy Guðmundsson landsliðsmarkvörður fór þaðan í sumar til Nötteröy í Noregi, og Sigfús Sigurðsson lék með liðinu seinni hluta tímabilsins. Emsdettener Volkszeitung rifjaði einmitt upp eftirminnilega komu Sigfúsar til félagsins, einmitt fyrir leik gegn Minden, fyrir ári síðan.

Fram kemur að Ernir æfði með Emsdetten í sumar áður en hann gekk til liðs við Düsseldorf. Á dögunum meiddist önnur örvhenta skytta Emsdetten og verður lengi frá keppni og fyrir vikið hafa forráðamenn liðsins reynt að krækja í Íslendinginn. Düsseldorf þarf að losa sig við leikmenn til að bæta fjárhagsstöðu sína og annar af lykilmönnum þess er einnig á leið í burtu.