Sigurður Flosason
Sigurður Flosason
Danska veftímaritið Jazznyt hefur valið nýlegan geisladisk saxófónleikans Sigurðar Flosasonar og dönsku söngkonunnar Cathrine Legardh eina af 10 bestu djassplötum ársins í Danmörku.

Danska veftímaritið Jazznyt hefur valið nýlegan geisladisk saxófónleikans Sigurðar Flosasonar og dönsku söngkonunnar Cathrine Legardh eina af 10 bestu djassplötum ársins í Danmörku. Diskurinn, sem ber titilinn Land & Sky, er tvöfaldur og geymir 20 lög, öll eftir Sigurð við texta eftir Legardh, ýmist á ensku eða dönsku. Dönsku stórblöðin Berlingske tidende og Politiken, sem og aðrir danskir fjölmiðlar, hafa einnig fjallað lofsamlega um diskinn og þess má geta að hann var einnig tilnefndur til dönsku tónlistarverðlaunanna í síðasta mánuði.

Land & Sky kom út á vegum Storyville-útgáfunnar í Kaupmannahöfn. Flytjendur ásamt Sigurði og Legardh eru píanóleikarinn Peter Rosendal, bassaleikarinn Lennart Ginman og trommuleikarinn Andreas Fryland.

Í fyrra var platan Dark Thoughts, með tónlist Sigurðar og útsetningum Daniels Nolgaards með Norbotten-stórsveitinni, tilnefnd til djassverðlauna Svíþjóðar.