Bandaríkjaher hverfur nú frá Írak, sem stendur frammi fyrir mikilli áskorun

Margt fór á annan veg en ætlað var í Írak. Upplýsingar um gereyðingarvopn reyndust ótraustar og svo virðist sem harðstjórinn Saddam Hussein hafði logið til um vopnabúr sitt, líklega í þeim tilgangi að treysta stöðu sína. Það fór á annan veg.

Hertaka landsins gekk greiðlega og var sennilega fljótlegri en flestir töldu. Að friða landið gekk hægar og nú, tæpum áratug eftir innrásina, er enn ekki búið að tryggja friðsæld að fullu. Bandarískir hermenn verða til að mynda enn fyrir tilfallandi skotárásum.

Engu að síður lauk formlegum hernaði Bandaríkjamanna í Írak í gær við hófstillta athöfn og verður heraflinn horfinn frá landinu fyrir árslok.

Hernaðurinn kostaði mörg mannslíf og mikið fé, en reynslan af Saddam segir að hann hafi líka bjargað mörgum mannslífum. Þá verður ekki framhjá því litið að Írakar búa nú við stjórn sem þeir kusu sjálfir, sem er nánast einsdæmi í þessum heimshluta.

Engum dettur í hug að einfalt verði eða áfallalaust að byggja upp traust lýðræðisríki í Írak. Á hinn bóginn er ástæða til að fagna því að Írakar hafa nú tækifæri til að móta sér framtíð að eigin ósk. Það tækifæri höfðu þeir ekki fyrir innrásina og vonandi bera þeir gæfu til að nýta það til fulls.