Nýir Haukur Heiðar Hauksson, Atli Sigurjónsson og Þorsteinn Már Ragnarsson eru tilbúnir í slaginn um sæti í liði KR.
Nýir Haukur Heiðar Hauksson, Atli Sigurjónsson og Þorsteinn Már Ragnarsson eru tilbúnir í slaginn um sæti í liði KR. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Íslands- og bikarmeistarar KR í knattspyrnu fengu í gær til liðs við sig miðjumanninn Atla Sigurjónsson frá Þór og sömdu við hann til þriggja ára.

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Íslands- og bikarmeistarar KR í knattspyrnu fengu í gær til liðs við sig miðjumanninn Atla Sigurjónsson frá Þór og sömdu við hann til þriggja ára. Atli er þriðji ungi og efnilegi leikmaðurinn sem KR-ingar fá til sín á skömmum tíma. Áður höfðu þeir fengið varnarmanninn Hauk Heiðar Hauksson frá KA og Þorsteinn Má Ragnarsson frá Víking Ólafsvík. Allir eiga þessir leikmenn sameiginlegt að vera rétt skriðnir yfir tvítugt en með talsverða reynslu engu að síður.

„Þessar strákar eru mjög góð viðbót í hóp okkar. Ég hefði ekki fengið þá nema ég hefði virkilega trú á þeim. Þar með er ekki sagt að menn sem koma til félagsins fái sjálfkrafa byrjunarliðssæti. Þeir þurfa að hafa fyrir því enda er hópurinn góður sem er fyrir. En þeir eru tilbúnir í samkeppnina og ég vænti góðs af þeim,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, við Morgunblaðið.

„Eins og staðan er í dag þá gætum við verið að missa Guðjón Baldvinsson til Halmstad, Jordao Diogo er ekkert mjög áhugasamur að vera hér á Íslandi, Guðmundur Reynir Gunnarsson verður í námi fram í maí, við erum búnir að missa Gunnar Örn og við vitum að það er áhugi fyrir Kjartani Henry. Þetta er óþægileg staða og því var mjög mikilvægt að fá þessa leikmenn. Ég taldi vænlegra að fá yngri menn en KR hefur oftast fengið og ég veit að þeir hafa allir mikinn metnað og hafa reynslu sem er mjög mikilvægt,“ sagði Rúnar.

Spenntir fyrir Brynjari

Orðrómur hefur verið í gangi að Brynjar Björn Gunnarsson komi heim og spili með KR í sumar. Spurður út í þau mál sagði Rúnar; „Við erum spenntir fyrir því að fá Brynjar. Ég hef rætt við hann og hann hefur áhuga á að spila með KR ef hann hættir í Reading. Hann er hins vegar samningsbundinn fram til loka júní og þá gæti hann ekki spilað með okkur fyrr en í júlí svo þetta er í óvissu.“

*Myndbandsviðtöl við Rúnar og Atla Sigurjónsson er að finna á mbl.is.