Farþegar Í samgönguáætlun er lögð til hækkun gjalda á Reykjavíkurflugvelli en tölur Isavia sýna að hún hrekkur ekki til fyrir kostnaði.
Farþegar Í samgönguáætlun er lögð til hækkun gjalda á Reykjavíkurflugvelli en tölur Isavia sýna að hún hrekkur ekki til fyrir kostnaði. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Það blæs ekki byrlega fyrir innanlandsflugi á Íslandi í samgönguáætlun sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra lagði fyrir Alþingi á miðvikudag.

Fréttaskýring

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Það blæs ekki byrlega fyrir innanlandsflugi á Íslandi í samgönguáætlun sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra lagði fyrir Alþingi á miðvikudag. Annars vegar er um að ræða verkefnaáætlun með fjárhagsramma sem gildir fyrir árin 2011 til 2014 og hins vegar tólf ára samgönguáætlun fyrir árin 2011 til 2022 sem felur í sér stefnumótun í málaflokknum.

Í áætluninni til 2014 segir að óverulegt svigrúm sé til viðhalds og framkvæmda við innanlandsflugvelli næstu árin og aðalviðfangsefnið verði að viðhalda mannvirkjum sem ella gangi úr sér. Þannig fær viðhald flugbrauta, brýnasta flugöryggisbúnaðar og flugbrautarljósa mestan forgang. Stefnt er að hækkun lendingar- og farþegagjalda á Reykjavíkurflugvelli til jafns við gjöld á Keflavíkurflugvelli. Gæti hækkunin skilað 250 milljónum króna á ári sem nýttar yrðu í nauðsynlegar framkvæmdir og viðhald í innanlandsfluginu. Farþegagjald í Keflavík er 1.200 krónur fyrir fullorðna en er 498 krónur í Reykjavík.

Óvíst er hvort sú hækkun dugi til því í langtímaáætluninni til 2022 kemur fram að útreikningar Isavia sýni að farþegagjöld í innanlandsflugi þurfi að hækka verulega til að flugvallakerfið geti staðið undir æskilegum fjárfestingum og haldist í óbreyttum rekstri. Ef gjald á hvern farþega ætti að standa undir rekstri og viðhaldi núverandi innanlandskerfis í flugi yrði farþegagjald 5.560 kr. á hvern fullorðinn farþega.

Hækka vitagjaldið

Í siglingamálaáætlun í fjögurra ára samgönguáætluninni kennir ýmissa grasa. Heildarfjármagn til siglingamála á áætlunartímabilinu 2011-2014 nemur tæpum 6,8 milljörðum króna. Af því er rúmlega einn milljarður í vitagjald sem innheimt er eftir stærð skipa og á það að standa undir rekstri Siglingastofnunar.

Gert er ráð fyrir að vitagjaldið hækki um fimm prósent frá og með 1. janúar 2012 í samræmi við verðlagsbreytingar. Eins og er nemur vitagjald 130,12 krónum á hvert brúttótonn skips en þó aldrei lægra en 4.900 krónur.

Búi sig undir sjávarflóð

Þá er kveðið á um að rúmum hálfum milljarði króna verði varið í sjóvarnir. Víða séu sjóvarnargarðar orðnir fimmtán til tuttugu ára gamlir og þarfnist endurbyggingar og styrkingar.

Við útdeilingu fjármagns til þessara verkefna er stuðst við forgangsröðunarlíkan Siglingastofnunar og er stærsta verkefnið sagt vera fyrsti áfangi sjóvarnargarðs við Vík í Mýrdal sem unnið var að á þessu ári.

Það er þó varað við því að framkvæmdaþörfin gæti aukist ef sjávarflóð verða en búast megi við stórflóðum á tíu til tuttugu ára fresti. Um tuttugu ár eru frá síðasta stórflóði suðvestanlands en tólf til fjórtán ár á Norðurlandi.

Frá því að Landeyjahöfn var tekin í notkun hafa dýpkunarskip átt annríkt við að dýpka hafnarmynnið til að Herjólfur geti siglt þar inn. Gert er ráð fyrir 1,05 milljörðum í framkvæmdakostnað á næstu þremur árum og að honum verði að mestu varið í viðhaldsdýpkun.

SKÝRSLA UM FRAMKVÆMD

Send til Alþingis í dag

Samkvæmt 5. grein laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008, á innanríkisráðherra að skila skýrslu um framkvæmd samgönguáætlunar næstliðins árs til Alþingis. Það hefur enn ekki verið gert en samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu var verið að leggja lokahönd á skýrsluna um framkvæmd samgönguáætlunar ársins 2009 í gær.

Stóð til að hún yrði send Alþingi í dag. Það er þó ekki víst að henni verði dreift til þingmanna strax í dag þar sem mikið álag er á Alþingi þessa dagana. Gæti það því frestast fram yfir helgi að skýrslunni yrði dreift.

Skýrsla ráðherra í fyrra var sú fyrsta þar sem teknar voru saman allar samgöngugreinarnar þrjár; flug-, siglinga- og vegamál en áður kom út ein skýrsla fyrir hverja grein.