Sævar Líndal Jónsson fæddist í Reykjavík 17. júní 1939. Hann lést á heimili sínu 28. nóvember 2011.

Útför Sævars fór fram frá Grafarvogskirkju 9. desember 2011.

Kæri frændi minn og jafnaldri er látinn.

Við ólumst upp öll saman systkinabörnin á Minnibakka, feður okkar byggðu saman parhús, við vorum öll Jónsbörn, faðir minn Jón og móðir Sævars voru systkin, Emma með sín sex börn og Jón tvö. Það var oft fjör í húsinu hjá okkur, mæður okkar voru miklar handavinnukonur, það voru saumuð á öll börnin ný föt, náttföt, rúmföt og gardínur fyrir hver jól. Feður okkar máluðu öll herbergi fyrir hver jól, þeir byggðu sjálfir húsið okkar frá a-ö enda báðir þúsundþjalasmiðir að vestan. Við áttum góð uppeldisár á Nesinu, allir krakkar vinir, skólinn í næsta húsi, skíðabrekka við hinn endann, skautasvellið í Mýrinni, sjórinn við túnfótinn og Holtið með öllum kríunum.

Um áramót til 6. janúar vorum við upptekin við að fylgjast með álfunum flytja sig um set í Esjunni, við vissum það síðar að þetta voru bílljós. Það voru góð ár á Nesinu þar til dró til tíðinda, þegar Jón faðir Sævars lést 34 ára gamall á sjúkrahúsi í Danmörku, þá voru yngstu börnin, tvíburarnir, 9 mánaða og elsta barnið 12 ára. Aldrei gleymi ég því þegar við börnin horfðum á föður minn skrúfa stofurúðuna úr til þess að koma kistunni inn, hún átti að standa þar í eina viku. Aftur horfðum við á Jón föður minn taka rúðuna úr þegar átti að jarðsetja Jón Líndal. Þetta voru erfiðir tímar fyrir ekkjuna ungu með öll börnin sín sex, það var styrkur að hafa bróður sinn og mágkonu í hinum endanum enda voru þær góðar vinkonur og börnin öll samrýmd, þetta var eins og ein stór fjölskylda.

Sævar lærði til stýrimanns og bætti við sig Lordinum. Hann sigldi hjá SÍS, Eimskip, Jöklum og Ríkisskipum þar til hann fór í land vegna veikinda. Sævar lætur eftir sig tvær dætur, barnabörn og eitt langafabarn.

Hvíl í friði, elsku frændi.

Dagný Jónsdóttir.