Afkastamikill Tónskáldið Björgvin Guðmundsson.
Afkastamikill Tónskáldið Björgvin Guðmundsson.
Árni Matthíasson arnim@mbl.is Fyrir stuttu kom út ævisaga Björgvins Guðmundssonar tónskálds og tónlistarmanns sem lést í janúar 1961.

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is Fyrir stuttu kom út ævisaga Björgvins Guðmundssonar tónskálds og tónlistarmanns sem lést í janúar 1961. Bókin ber heitið Ferill til frama og höfundur hennar er Haukur Ágústsson, en áhugamenn um minningu Björvins standa að útgáfunni. Salka annast dreifingu bókarinnar.

Tónlistargáfan kom snemma í ljós

Björgvin Guðmundsson fæddist að Rjúpnafelli í Vopnafirði 26. apríl 1891. Foreldrar hans voru Guðmundur Jónsson og Anna Margrét Þorsteinsdóttir frá Glúmsstöðum í Fljótsdal. Tónlistargáfur Björgvins komu snemma í ljós, en lítil tækifæri fékk hann til að sinna þeim í einangrun sveitarinnar. Hann hafði þó aðgang að stofuorgeli og samdi þar sín fyrstu lög sem unglingur.

1911 fluttist fjölskyldan vestur um haf, settist að í Winnipeg, og þar komst Björgvin í tæri við meiri tónlist en heima í sveitinni, og hélt áfram að metta sig sjálfur. 1915 fluttist Björgvin með bræðrum sínum til vatnabyggðar, Saskatchewan, og bjó þar næstu árin, vann við búskap og samdi tónlist eftir því sem færi gafst. Hann komst þá meðal annars í kynni við ástralska tónskáldið Percy Grainger sem hreifst af þeim verkum sem Björgvin sýndi honum og hvatti hann til að halda tónsmíðunum áfram.

1923 fluttist Björgvin aftur til Winnipeg og samdi þar meðal annars kantötu sem vakti svo mikla athygli að Vestur-Íslendingar hrintu af stað fjársöfnun til að kosta hann til náms í tónsmíðum, stofnuðu svonefndan Björgvinssjóð.

Söngkennsla á Akureyri

Haustið 1926 hélt Björgvin svo til Lundúna með eiginkonu sinni og hóf nám í Royal College of Music. Hann lauk því námi vorið 1928 og sneri að því loknu aftur til Winnipeg, hóf tónlistarkennslu, stofnaði kór og tók við söngstjórastarfi og organleikarastörfum við Sambandskirkjuna. 1931 var honum svo boðið að koma til Akureyrar og taka við söngkennslu við Menntaskólann og barnaskólann þar sem hann þáði og bjó á Akureyrir upp frá því.

Skömmu eftir heimkomuna stofnaði hann Kantötukór Akureyrar og stjórnaði honum í rúm tuttugu ár, aukinheldur sem hann var afkastamikið tónskáld. Hann fékkst þó ekki aðeins við tónlist heldur samdi hann leikritið Skrúðsbóndann, sem naut mikilla vinsælda á Akureyri, skrifaði sjálfævisögu og var iðinn við skrif í blöð og tók iðulega þátt í snörpum ritdeilum, enda lá hann ekki á skoðunum sínum.

Ekki gefinn fyrir tilraunir

Kantötukórinn var mjög áberandi í íslensku tónlistarlífi um langt skeið enda hélt hann iðulega tónleika í Reykjavík og víðar, hlaut til dæmis silfurverðlaun í alþjóðlegri kórakeppni í Stokkhólmi 1951.

Sem tónskáld var Björgvin kallaður anakrónískur, þótti gamaldags, enda var hann ekki gefinn fyrir tilraunir í tónlist og þá nýju strauma sem voru allsráðandi í tónsmíðum á fyrri hluta síðustu aldar. Það hefur sitt að segja með það að verk hans eru ekki eins þekkt og margra annarra, en einnig var hann nokkuð á skjön við þá kynslóð tónskálda og tónlistarmanna sem mest bar á hér á landi á þeim árum. Hann samdi yfir 600 verk, stór og smá. Langmest af því voru söngverk, aðallega verk fyrir blandaðan kór.