<strong>Íslandsbanki</strong> ISB fer með 95% hlut.
Íslandsbanki ISB fer með 95% hlut.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRÉTTASKÝRING Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Öll stjórn ISB Holding, dótturfélags þrotabús Glitnis, hefur verið sett af. ISB Holding fer með 95% eignarhlut í Íslandsbanka.

FRÉTTASKÝRING

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Öll stjórn ISB Holding, dótturfélags þrotabús Glitnis, hefur verið sett af. ISB Holding fer með 95% eignarhlut í Íslandsbanka.

Allir aðalmenn stjórnarinnar, þau Ólafur Ísleifsson hagfræðingur, sem verið hefur formaður stjórnar, Ásta Þórarinsdóttir viðskiptafræðingur og María Björg Ágústsdóttir, starfsmaður Glitnis, fengu fyrir skemmstu tilkynningu um það frá Steinunni Guðbjartsdóttur, formanni slitastjórnar Glitnis, að ákveðið hefði verið að skipta um stjórn. Þetta fékk Morgunblaðið staðfest í gær.Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins tilgreindi Steinunn ekki aðrar ástæður fyrir breytingunum en þær, að um áherslubreytingar væri að ræða.

Ný stjórn í hæfismat

Tryggvi Pálsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, verður formaður hinnar nýju stjórnar og með honum í stjórn verða þau Reynir Kristinsson rekstrarráðgjafi, sem var varamaður í stjórn ISB Holding, og Dagný Halldórsdóttir.

Samkvæmt lögum hætta skilanefndir bankanna störfum frá og með næstu áramótum og þau verkefni sem hafa verið í þeirra höndum og enn verður ólokið færast þá til slitastjórna bankanna. Það á við um skilanefndir Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankans.

Glitnir er þrotabú, eins og kunnugt er, og meðal eigna þrotabúsins er 95% hlutur í Íslandsbanka. Þrotabú getur ekki farið með virkan eignarhlut í banka, en á hinn bóginn getur dótturfélag þrotabús farið með virkan eignarhlut, en það er einmitt ástæða þess að ISB Holding var stofnað af skilanefnd Glitnis á sínum tíma, sem dótturfélag Glitnis.

Skilyrði Fjármálaeftirlitsins

Þegar það var gert setti FME ákveðin og ströng skilyrði fyrir því að dótturfélög gætu farið með virkan eignarhlut í viðskiptabönkunum. Meðal annars það að langtímahagsmunir ættu að ráða för.

Gunnar Andersen, forstjóri FME, var spurður í gær, hvort FME hefði staðfest breytingar á stjórn ISB Holding: „Það hefur verið óskað eftir staðfestingu en fyrst þurfum við að fá nýja stjórnarmenn í hæfismat. Við þurfum að sannreyna óhæði þeirra, hæfi og hæfni. Við settum fjölmörg skilyrði fyrir þessu eignarhaldsfélagi til þess að tryggja sjálfstæði þess. Á næstunni verða þessir nýju stjórnarmenn kallaðir hingað til okkar í hæfismat,“ sagði Gunnar.

FJÁRMÁLAEFTIRLITIÐ

Ströng skilyrði voru sett

Fjármálaeftirlitið setti á sínum tíma fjölmörg og ströng skilyrði fyrir því hvernig rekstri eignarhaldsfélagsins ISB Holding, sem er dótturfélag þrotabús Glitnis, skyldi háttað.

Þriggja manna stjórn ISB Holding var öll sett af, fyrir skemmstu, af Steinunni Guðbjartsdóttur, formanni slitastjórnar Glitnis.