Gunnlaugur Grétar Björnsson fæddist í Tjarnarkoti í A-Landeyjum 16. desember 1932. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Kjarnalundi við Akureyri 31. október 2011.

Útför Gunnlaugs fór fram frá Akureyrarkirkju 7. nóvember 2011.

Í dag, 16. desember, hefði góður vinur minn Gunnlaugur G. Björnsson orðið 79 ára en hann dó 31. okt. síðastliðinn. Það er öruggt mál að það er eitt sem ég sakna í dag og það er það að eiga ekki ánægjulega stund í símanum að tala við Gulla eins og hann var ávallt kallaður. Ég hafði það fyrir sið eftir að ég fluttist suður á Akranes að ég hringdi alltaf í hann á afmælisdaginn hans. Alltaf var hann jafn undrandi á því að ég skyldi gefa mér tíma til að hringja í hann en þetta spjall okkar var hluti af því að jólin væru að koma. Hann þurfti alltaf að vera viss á því að við hefðum það gott og sérstaklega vildi hann vita hvernig börnunum mínum vegnaði. Þegar ég talaði við hann í fyrra var ég að undirbúa smá veislu í tilefni af því að dóttir mín var að verða stúdent. Það fannst honum að gæti nú bara ekki staðist því ég hefði verið smástelpa í Hólum fyrir smástund.

Ég held að ég hafi verið sex ára þegar ég kynntist Gulla en þá fluttist hann ásamt Auðbjörgu móður sinni í Hólakot, næsta bæ við mig. Og þar sem það var mjög stutt á milli bæjanna kynntumst við fljótt og ekki leið á löngu þar til ég fór að hlaupa ein á milli bæjanna til að heimsækja þau. Alltaf var manni tekið eins og sjálfur kóngurinn væri að koma í heimsókn og Gulli hafði ótrúlega þolinmæði að hafa mann á hælunum á sér þegar hann var að gefa kindunum og hænsnunum. Hann var óþrjótandi að segja manni sögur af skepnunum sínum, og ekki veit ég hvað hann var búinn að segja mér margar sögur af þeim og ýmsu öðru meðan hann var að gefa kindunum heyið.

Svo komst ég fljótt að því að hann hafði gaman að vísum því pabbi minn var alltaf með vísur á takteinunum þegar hann hitti Gulla og þá hristi Gulli höfuðið og leit á mig eða einhvern annan nærstaddan og benti á pabba og spurði: „Hvað kann þessi maður eiginlega margar vísur“. Þetta greip ég vitaskuld á lofti og fór að semja vísur til að geta sagt Gulla, og reyndi að semja vísur sem var hægt að syngja við eitthvert ákveðið lag. Síðan var kvæðið, ef kvæði skyldi kalla, skrifað niður og farið í heimsókn suður í Hólakot til Gulla, og hann söng og söng kvæðið með mér. Þetta finnst mér sýna vel hve Gulli var mikill ljúflingur því örugglega hefur þetta ekki verið auðvelt verkefni en með þessu tókst honum að gleðja barnssálina.

Hann mátti aldrei neitt aumt sjá og reyndi alltaf að gera hvað hann gat til að bæta hag annarra ef eitthvað amaði að. Þakklátur var hann og það var alltaf eins og maður væri að gera honum stóran greiða hversu lítið það var sem maður gerði fyrir hann. Ég heyri í huga mér orðin sem hann kvaddi mig ávallt með þegar ég hringdi í hann. „Elsku Gilla mín, þakka þér fyrir að hringja og hafðu þökk fyrir allt og allt í gegnum árin og sérstaklega árin mín í Hólakoti og hafðu það ætíð sem best“. En elsku Gulli minn, það er miklu frekar mitt að þakka og því segi ég: Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Geirlaug Jóna Rafnsdóttir.