[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Baldur Arnarson baldura@mbl.is Ef fram heldur sem horfir verða á milli 250 og 280 eignir boðnar upp hjá sýslumanninum í Keflavík í ár og fer fjöldinn því mjög nærri metinu í fyrra þegar 280 fasteignir voru boðnar upp.

Fréttaskýring

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Ef fram heldur sem horfir verða á milli 250 og 280 eignir boðnar upp hjá sýslumanninum í Keflavík í ár og fer fjöldinn því mjög nærri metinu í fyrra þegar 280 fasteignir voru boðnar upp. Sýslumaðurinn bauð upp 98 eignir árið 2009 og stefnir því í að talan verði þrefalt hærri í ár.

Sé fjöldi uppboða suður með sjó lagður saman við uppboð á höfuðborgarsvæðinu stefnir heildartalan á þessu ári í 1.043 uppboð. Jafngildir það því að nærri þrjár eignir í eigu einstaklinga og fyrirtækja verði boðnar upp hvern dag ársins 2011.

Til samanburðar fóru fram 1.138 uppboð hjá sömu sýslumönnum í fyrra. Metið fellur því ekki.

Sá meginmunur er á uppboðum hjá sýslumanninum í Keflavík milli ára að í fyrra voru 44 ófullbúnar íbúðir boðnar upp. Nú eru hins vegar nær allar eignirnar íbúðarhæfar.

Nær nífalt fleiri en árið 2006

Það gefur gleggri mynd af uppboðsárinu 2011 að hafa árin fyrir hrun til viðmiðunar. Sem fyrr segir stefnir nú í 1.043 uppboð á höfuðborgarsvæðinu og í Keflavík í ár borið saman við 117 uppboð árið 2006. Fer því nærri að uppboðin í ár verði nífalt fleiri en árið 2006.

Sé horft til ársins 2007 stendur talan í 198 uppboðum og stefnir því í fimmfalt fleiri uppboð í ár.

Árið 2008 fóru fram 366 uppboð á höfuðborgarsvæðinu og í Keflavík. Voru uppboðin þá ríflega þriðjungur af áætluðum uppboðum í ár. Loks má nefna að uppboðin á sama svæði voru 436 árið 2009 og verða því ríflega tvöfalt fleiri í ár. Eru þrettán sveitarfélög í landshlutanum á bak við uppboðin sem hér er rætt um.

Sé litið aftur til ársins 2001 kemur í ljós að ekkert ár kemst í hálfkvisti við árin 2010 og 2011 í uppboðum.

Árið 2003 kemst næst því en þá var 491 eign boðin upp á höfuðborgarsvæðinu og í Keflavík, borið saman við ríflega eitt þúsund uppboð árin 2010 og 2011.

Á bak við hvert uppboð er ekki endilega sala. Hins vegar taldi heimildarmaður Morgunblaðsins hjá einu sýslumannsembættinu óhætt að slá því föstu að flestum uppboðum lyki með útgáfu afsals við nauðungarsölu. Er því gengið út frá því hér að flestum uppboðum ljúki með sölu.

Hlutfall uppboða af sölu er hátt

Undanfarið hafa reglulega birst fregnir af aukinni veltu á fasteignamarkaði. Er því athyglisvert að bera saman fjölda uppboða og þinglýstra kaupsamninga á síðustu árum.

Byrjum á árinu 2011. Sem áður segir er útlit fyrir 1.043 uppboð í ár. Til samanburðar var þinglýst alls 4.552 kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu og í Keflavík á tímabilinu 31. desember 2010 til 8. desember 2011, þar af 207 samningum í Keflavík.

Sé gengið út frá því að 90% uppboða hafi lokið með sölu – þ.e. 939 af 1.043 uppboðum á svæðinu öllu – er hlutfall slíkrar sölu af heildinni, að þinglýstum kaupsamningum meðtöldum, 17% í ár.

Í fyrra var 3.148 eignum þinglýst í áðurnefndum sveitarfélögunum en 1.138 eignir boðnar upp. Samkvæmt sama söluhlutfalli var hlutfall uppboða það ár um 25%.

Er þá gengið út frá því að 1.024 uppboðum hafi lokið með sölu. Í hittiðfyrra var 2.285 samningum þinglýst á svæðinu og var hlutfall uppboða þá 15%, að því gefnu að 392 af 436 uppboðum hafi lokið með sölu.

Má því ætla að þúsundir Íslendinga hafi keypt uppboðseignir síðan hagkerfið fór á hliðina haustið 2008.

SAMGÖNGUR

Fjöldi bíla er boðinn upp

Á vefsíðum sýslumannsembættanna má finna ýmsan fróðleik. Meðal þess eru tölur yfir fjölda nauðungarsala á bifreiðum hjá Sýslumanninum í Reykjavík fyrstu níu mánuði ársins, frá janúar til september.

Segir þar að seldar hafi verið 137 bifreiðar í nauðungarsölum í mars (74), maí (35) og september (28). Til samanburðar voru 289 bifreiðar seldar nauðungarsölu hjá sýslumanninum í Reykjavík í fyrra; 60 í febrúar, 54 í mars, 82 í júní, 51 í september og 42 í nóvember.