Hreinn Gunnlaugsson fæddist 24. apríl árið 1931 á Siglufirði. Hann lést á dvalarheimilinu Felli 4. desember 2011.

Foreldrar hans voru hjónin Kristín Ágústa Guðmundsdóttir, f. 30. nóvember 1906, d. 22. október 1984, og Gunnlaugur Sigurvin Einarsson, f. 21. janúar l901, d. 24. júlí 1981. Þau skildu. Hreinn ólst upp í Eyjafirði hjá föðursystur sinni, Kristínu Björgu Einarsdóttur, f. 15. september 1894, og manni hennar Guðmundi Rögnvaldssyni, f. 24. október 1891.

Föðurforeldrar Hreins voru Rannveig Guðmundsdóttir og Einar Bjarnason. Þau bjuggu í Eyjafirði. Móðurforeldrar hans voru Sigríður Sigurðardóttir úr Skarðdal í Siglufirði og Guðmundur Jörundsson, skipstjóri og útgerðarmaður úr Hrísey í Eyjafirði.

Hreinn var ókvæntur og barnlaus. Hann átti eina alsystur og tvö hálfsystkini sammæðra: Svafa Gunnlaugsdóttir, f. 11. október 1928. Guðmundur Ragnar Ragnarsson, f. 20. september 1942, látinn 11. apríl 2007. Þuríður Ragnarsdóttir, f. 9. apríl 1949.

Hreinn lauk minna vélstjóraprófi á Akureyri 1949 og var eftir það mikið á sjó, á togurum mest framan af, lengst á togaranum Úranusi, en síðar mest á fiskibátum. Hann lauk einnig meiraprófi bifreiðarstjóra og ók um langt skeið vörubifreiðum og einnig leigubifreiðum.

Útför Hreins verður gerð frá Fossvogskapellu í dag, 16. desember 2011, og hefst athöfnin kl. 15.

Ég var á gangi með systur minni, Margréti, í miðborg Reykjavíkur í miðnætursól og mikilli veðurblíðu þann 18. júní 1968 — og nánast enginn á ferli.

Leiðin lá niður á höfn, eins og svo oft áður. Við röltum í áttina að gömlu togarabryggjunni. Skyndilega sáum við mannþyrpingu og marga bíla á bryggjunni við einn af togurunum okkar.

Togarinn var greinilega að búast til brottferðar. Og allt í einu horfist ég óvænt í augu við Hrein frænda í miðri þyrpingunni. Ég byrja strax að spyrja hann í þaula hvort hann sé um borð og hvert sé verið að fara og var þá mikið niðri fyrir, enda var ég að leita mér að góðu plássi eftir strangan námsvetur. Við Hreinn Gunnlaugsson, sem nú er kvaddur í hinsta sinn, erum systrasynir. Kristín móðir hans og Helga, móðir mín, báðar Guðmundsdætur, voru systur frá Siglufirði, síldarbænum magnaða fyrir norðan.

Jú, Hreinn var þarna á bryggjunni orðinn vélstjóri á togaranum Úranusi, einum Tryggva-togaranna svonefndu, sem var að búast til brottferðar í siglingu með afla á erlendan markað. „Og hvenær farið þið,“ spurði ég og var þá orðinn uggandi um að ég væri kannski að missa af góðu tækifæri. „Viltu að ég tali við kallinn fyrir þig?“ spurði Hreinn skyndilega. Og ég hélt það nú. Og hann hvarf léttur í spori um borð. Ég beið í ofvæni, sagði ekki aukatekið orð. Hreinn kom von bráðar og sagði mér að sækja dótið mitt, sem ég gerði á methraða. Þetta hafði mig dreymt um, að sigla til annarra landa oft og lengi og þéna vel. Og þetta gekk allt eftir.

Svona var Hreinn frændi. Alltaf tilbúinn til að greiða götu þeirra sem leituðu ásjár hjá honum. Hann var og með eindæmum góður við börn, góður við okkur öll yngra frændfólkið sitt, með einstaklega ljúft og gott skap, varkár í orðum og aldrei að flýta sér. Þó gat hann verið fastur fyrir og ákveðinn, og jafnvel byrst sig ef þess þurfti með.

Og það var svo merkilegt með Hrein að hann talaði við okkur börnin í stór-fjölskyldunni sem jafningja og af virðingu. Hann hafði einkakáetu á Úranusi þar sem við sátum oft og spjölluðum sem jafningjar um lífið og tilveruna.

Hreinn var vinsæll um borð. Hann var víðlesinn og fróður um ótrúlega margt. Hann hafði góða frásagnargáfu og talaði vandaða íslensku með norðlenskum hreim.

Við Hreinn frændi urðum nánir skipsfélagar og vinir sumarið 1968, þrátt fyrir mikinn aldursmun. Hreinn var góður frændi alla tíð og er ég þá einnig að tala fyrir hönd systkina minna. Hann var lífsglaður, andlega þenkjandi maður og mikill húmanisti — mannvinur.

Eftirlifandi frænkum mínum og systrum Hreins, þeim Svövu og Þuríði og fjölskyldum þeirra votta ég mína dýpstu samúð. Fjölskyldu Guðmundar, „Mugga“ frænda á Vopnafirði, bróður þeirra systkina, votta ég einnig dýpstu samúð, en Muggi frændi lést fyrir nokkrum árum.

Ég minnist Hreins með virðingu, hlýju og þökk fyrir vináttuna, lífsstuðninginn og leiðsögnina á mínum mótunarárum og æ síðan. Blessuð sé minning Hreins frænda.

Jón Börkur Ákason.