Einar Magnús Magnússon
Einar Magnús Magnússon
Eftir Einar Magnús Magnússon: "Langur tími leið án þess að flestir ökumenn þyrftu nokkurn tíma að huga að þeim reglum og venjum sem almennt gilda um akstur í hringtorgum."

Það hefur enginn ökumaður komist í gegnum ökuskóla á Íslandi án þess að vera fræddur um þær reglur sem gilda um akstur í hringtorgum. Það er síðan spurningin hve vel viðkomandi hefur lagt þessar reglur á minnið því reglulega berst mikið af kvörtunum til Umferðarstofu og lögreglu um það að ökumenn fari ekki rétt að. Þar ber helst á skorti á notkun stefnuljósa og misskilningur eða tillitsleysi varðandi forgang. Við skulum rifja upp helstu reglur um akstur í hringtorgum.

1. Sá sem ætlar að beygja út úr torginu á fyrstu útkeyrslu skal undantekningarlaust aka inn á hægri akrein, það er að segja á ytri akreinina í hringtorginu.

2. Sá sem ætlar að aka framhjá fyrstu útkeyrslu og fara út á þeirri næstu skal alla jafna vera á ytri akreininni, þótt ekkert banni honum að fara í innri hring.

3. Ætli ökumenn hins vegar að beygja út úr hringtorgi á þriðju eða fjórðu útkeyrslu skulu þeir fara í innri hring. Ekkert bannar þeim þó að aka í ytri hring, en í mikilli umferð má búast við að þeir valdi truflun og óþægindum fyrir aðra ökumenn haldi þeir sig í ytri akrein fram hjá svo mörgum útkeyrslum.

4. Aldrei má skipta um akrein í hringtorgi.

5. Hér á landi er reglan sú að umferð á hringtorgi hefur ávallt forgang fyrir þeim sem eru að aka inn í það.

6. Sá sem ekur á innri akrein í hringtorgi og ætlar út úr því á forgang fyrir þann sem er á ytri akrein. Þannig verður sá sem er á ytri akrein að vera stöðugt vakandi fyrir umferð á innri akrein. Þetta gildir þó því aðeins að sá sem er í innri hring sé framan við miðju þess ökutækis sem er í ytri hring.

7. Notið stefnuljósin! Láttu aðra vita hvert þú hyggst fara og komdu með því í veg fyrir að samferðamenn þínir séu að eyða dýrmætum tíma í óþarfa bið. Sá sem ætlar út úr hringtorgi skal gefa stefnuljós tímanlega til hægri. Einnig gefur hann tímanlega stefnuljós til vinstri ef hann er á ytri akrein hringtorgsins og hyggst aka áfram framhjá útkeyrslu.

Fyrir nokkrum áratugum hurfu hringtorg nánast með öllu úr skipulagi gatnakerfa. Langur tími leið án þess að flestir ökumenn þyrftu nokkurn tíma að huga að þeim reglum og venjum sem almennt gilda um akstur í hringtorgum. Það urðu því viðbrigði fyrir marga þegar þessi umferðarmannvirki komust að segja má aftur í „tísku“ en það var fyrst og fremst vegna þess umferðaröryggis sem þau veita. Það verður hins vegar töluvert um smávægileg óhöpp án líkamsmeiðsla í hringtorgum og má fullyrða að rekja megi þau nánast öll til þess að einstaka ökumenn skortir tillitssemi og ábyrgð við aksturinn. Það er því ágætt að rifja upp og temja sér þá leiðsögn sem sjá má hér að ofan.

Lesendum skal bent á að inni á Youtube má finna mynd sem Umferðarstofa lét gera og heitir Akstur í hringtorgum.

Höfundur er upplýsingafulltrúi Umferðarstofu.

Höf.: Einar Magnús Magnússon