Nanna Haraldsdóttir fæddist í Gróttu, Seltjarnarnesi, 21. janúar 1935. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 29. nóvember 2011.

Útför Nönnu fór fram frá Digraneskirkju 12. desember 2011.

Hún Nanna móðursystir okkar er farin, og um leið er heimurinn fátæklegri en hann var áður. Við gleymum aldrei þeim hlýhug og vináttu sem hún sýndi okkur bræðrum og öðrum, hvort sem það var á okkar sameiginlegu ferðalögum eða í jólaboðum fjölskyldunnar. Aldrei heyrðum við kvörtunarorð frá henni í þeim erfiðu veikindum sem hún glímdi við og í okkar síðustu samtölum hafði hún meiri hug á að vita hvernig okkur gengi í okkar lífsbaráttu.

En minningin um glaðværð hennar og hlýhug lifir meðal þeirra sem hún átti samskipti við og yljar nú þegar dimmasta skammdegið hellist yfir okkur. Blessuð sé minning þín og við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Einars og fjölskyldu með bæninni sem amma Ásta á Sólvangi kenndi okkur:

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Steindór og Haraldur

Páll Gunnlaugssynir.