Á vafri ? Þessi ökumaður getur skrifað skilaboð og athugað fréttir dagsins án þess að eiga hættu á sekt, þar sem handfrjálsi búnaðurinn er fyrir hendi.
Á vafri ? Þessi ökumaður getur skrifað skilaboð og athugað fréttir dagsins án þess að eiga hættu á sekt, þar sem handfrjálsi búnaðurinn er fyrir hendi. — Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Andri Karl andri@mbl.is Farsíminn skipar stóran sess í lífi flestra fullorðinna og er í seinni tíð notaður til mun fleiri hluta en hann var upphaflega ætlaður, símtala manna á milli.

Fréttaskýring

Andri Karl

andri@mbl.is

Farsíminn skipar stóran sess í lífi flestra fullorðinna og er í seinni tíð notaður til mun fleiri hluta en hann var upphaflega ætlaður, símtala manna á milli. Í nóvember 2001 tók gildi bann við notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar og ári síðar fór lögregla að sekta fyrir slíkt athæfi. Þrátt fyrir bannið sjást fjölmargir ökumenn dagsdaglega nota síma sinn undir stýri, hvort sem er til símtala, skilaboðaskrifa og -lesturs eða jafnvel til að vafra um netið. Og þetta mega ökumenn gera, svo lengi sem þeir eru með handfrjálsa búnaðinn tengdan við símann.

Vestanhafs var í síðustu viku greint frá því að Samgönguöryggisnefnd Bandaríkjanna (NTSB), sem meðal annars sér um rannsókn banaslysa, hefði lagt til viðtækt bann við notkun farsíma – og raunar allra rafmagnstækja – sem ekki aðstoða ökumenn við akstur. Var lagt til að bannið skyldi ná yfir öll ríki Bandaríkjanna. Alls óvíst er hvort tilmæli nefndarinnar verða að lögum en þau verða þó eflaust skoðuð af stjórnvöldum.

Tilmælin koma ekki til af góðu. Þau tengjast rannsókn banaslyss sem varð í Missouri á síðasta ári. Nítján ára ökumaður pallbíls olli slysinu en í því lést hann og farþegi í langferðabíl. Einnig hlutu 35 einstaklingar, farþegar tveggja skólarútna og ökumaður dráttarvélar, meiðsli, allt frá mjög alvarlegum til minniháttar. Rannsókn slyssins leiddi í ljós að pilturinn átti í skilaboðasendingum við aksturinn og þær drógu athygli hans frá því sem gerðist fyrir framan hann.

Töluverð gagnrýni hefur komið fram á tilmælin enda þykja þau ganga mjög langt. Stjórnarformaður NTSB sagðist sjálfur gera sér grein fyrir að þau væru ekki til vinsælda fallin, en stofnunin væri heldur ekki í vinsældakosningu.

Reglugerð ekki sett

Þó svo að orðalag íslensku umferðarlaganna sé með þeim hætti að hægt er að komast hjá banni við notkun farsíma í bílnum með því að tengja handfrjálsa búnaðinn verður að benda á tvennt. Annars vegar var ráðherra fengin heimild til að setja nánari reglur um notkunina og hins vegar segir í 4. gr. laganna: „Vegfarandi skal sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum.“

Heimild ráðherra var sett inn í lögin til að hægt yrði að „tryggja að samfara tæknilegri þróun verði unnt að setja reglur um notkun slíks búnaðar við akstur með hliðsjón af umferðaröryggi,“ eins og segir í greinargerð með frumvarpinu. Nánari reglur hafa hins vegar ekki verið settar, á þeim tíu árum sem lögin hafa verið í gildi. „Við getum þá ekki sektað ökumanninn. Það er aðeins notkun án handfrjáls búnaðar. Það er bara þannig og þetta er ekki nákvæmara í lögunum,“ segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

Erfið sönnunarstaða

Þá kemur til athuganar hvort hægt sé að kæra menn fyrir brot gegn 4. gr. umferðarlaga. „Þá vakna margar spurningar,“ segir Ágúst Mogensen, forstöðumaður rannsóknarnefndar umferðarslysa. „Má ökumaður skipta um geisladisk, eða ræða við farþega?“

Eins og staðan er í dag sektar lögregla ökumenn fyrir notkun farsíma án handfrjáls búnaðar. Á síðasta ári voru það um 630 ökumenn sem fengu sekt vegna slíkra brota og meðaltalið fyrir árin 2007 til 2009 er 630 sektarboð vegna brots gegn banninu, samkvæmt upplýsingum úr ársskýrslu ríkislögreglustjóra fyrir síðasta ár. „Það er óskaplega erfitt að eiga við þetta. Við þurfum að standa menn að verki og sanna það að þeir hafi verið að tala í símann. Það er hægara um að tala en í komast,“ segir Geir Jón og bætir við að sönnunarstaðan geti oft verið mjög erfið, enda þræti menn oftar en ekki fyrir það að hafa notað símann.

TEKIÐ Á Í FRUMVARPI

Önnur notkun bönnuð

„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar – og var það strax frá upphafi – að annað hvort á að leyfa mönnum að nota síma við akstur, og þá ekki endilega með handfrjálsun búnaði, eða banna það alfarið,“ segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Hann segist því hrifinn af tillögu samgönguöryggisnefndarinnar bandarísku og myndi styðja svo víðtækt bann hér á landi.

Í frumvarpi til umferðarlaga sem ekki hefur verið lagt fram að nýju, og óvíst er hvenær verður, er skerpt á ákvæðum um farsímanotkun við akstur. Enn má tala í símann með handfrjálsum búnaði en svo segir: „Jafnframt er ökumanni óheimilt að senda eða lesa smáskilaboð eða nota farsíma á annan hátt meðan á akstri stendur.“

Ágúst Mogensen, forstöðumaður rannsóknarnefndar umferðarslysa, segir þessa lendingu skynsamlega.