Pétur Stefánsson lýsir æsilegri atburðarás: „Við hjónin vöknuðum upp um miðja nótt við skarkala í íbúðinni. Ég hentist fram í stofu, en sá ekki neitt. En eitthvað eða einhver hafði þó kveikt á útvarpinu og stillt það mjög hátt.

Pétur Stefánsson lýsir æsilegri atburðarás: „Við hjónin vöknuðum upp um miðja nótt við skarkala í íbúðinni. Ég hentist fram í stofu, en sá ekki neitt. En eitthvað eða einhver hafði þó kveikt á útvarpinu og stillt það mjög hátt. Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem ærsladraugar koma í heimsókn.

Ei er mér í anda rótt,

allar nötra taugar,

að mér sóttu nú í nótt

nokkrir ærsladraugar.

Skelk í bringu skutu mér.

Skalf ég líkt og hrísla,

er þeir riðu húsum hér

hátt, og fóru að sýsla.

Mér fannst ég heyra fótatak

frammi í íbúðinni,

ískur, hvísl og eitthvert brak

sem ógnaði geðró minni.

Upp úr rúmi ofurhljótt

með ímynduðum þótta,

fram í stofu skaust ég skjótt

skjálfandi af ótta.

Engan draug var unnt sjá,

eftir þessa brýnu.

En kveikt hafði þó einhver á

útvarpstæki mínu.

Inni í minni íbúð hér

er ýmislegt á sveimi

sem ég veit að eflaust er

ekki af þessum heimi.

Björn Ingólfsson hughreysti hann úr því skaðinn var ekki meiri:

Það er einlægt álit mitt

að una megi hvor við sitt

ef drekkur hann ekki ölið þitt

og er ekki að fara að gera hitt.

Pétur Blöndal pebl@mbl.is