Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Framtakssjóður Íslands hefur selt rekstur og eignir Húsasmiðjunnar til dönsku byggingavörukeðjunnar Bygma Gruppen A/S (Bygma).

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Framtakssjóður Íslands hefur selt rekstur og eignir Húsasmiðjunnar til dönsku byggingavörukeðjunnar Bygma Gruppen A/S (Bygma). Söluferli Húsasmiðjunnar hefur staðið frá því í ágúst síðastliðnum og átti Bygma hæsta tilboð í fyrirtækið. Heildarvirði samningsins nemur um 3,3 milljörðum króna og felur hann í sér að Bygma tekur yfir vaxtaberandi skuldir Húsasmiðjunnar að upphæð um 2,5 milljarða króna og greiðir að auki 800 milljónir króna í reiðufé. Bygma tekur einnig yfir aðrar skuldir Húsasmiðjunnar, alla ráðningarsamninga við starfsfólk, leigusamninga og aðrar rekstrartengdar skuldbindingar. Engar skuldir eru afskrifaðar í tengslum við söluna og verður starfsemin áfram undir merkjum Húsasmiðjunnar eftir að nýr eigandi tekur við fyrirtækinu 1. janúar 2012.

Þekkja reksturinn

Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands lét hafa eftir sér í tilkynningu frá sjóðnum: „Kaup Bygma á Húsasmiðjunni, sem er leiðandi verslunarfyrirtæki á Íslandi, fela í sér beina og mikilvæga erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi.“

Í samtali við Morgunblaðið sagði Pétur Þ. Óskarsson hjá Framtakssjóðnum ennfremur að það væri ekki síst ánægjulegt að þessi stóri vinnustaður með um 450 starfsmenn væri kominn í öruggar hendur og atvinnuöryggi starfsmannanna ætti að hafa aukist.

Í spjalli við Morgunblaðið sagðist Sigurður Arnar Sigurðsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, vera ánægður með þessa nýju eigendur. „Það er gott að það er búið að eyða óvissunni um eignarhaldið,“ sagði Sigurður. „Það er líka ánægjulegt að þessir nýju eigendur eru að horfa til langs tíma auk þess sem það auðveldar allan rekstur að mennirnir þekkja þessi viðskipti.“

Langtímamarkmið

Aðspurður segir Peter H. Christiansen, forstjóri Bygma, að samkvæmt útreikningum þeirra muni reksturinn verða erfiður fyrstu 1-3 árin en til langs tíma litið eigi þetta að líta vel út. „Það er líka gott að eiga í viðskiptum í löndum sem hafa svipaða viðskiptamenningu og þekkist hér í Danmörku, þess vegna horfum við frekar til norðurhluta Evrópu heldur en til dæmis til suðurhlutans,“ segir Christiansen.

Bygma Gruppen A/S
» Bygma starfrækir yfir 65 verslanir í Danmörku, Svíþjóð og Færeyjum með um það bil 1600 starfsmönnum.
» Vörusala Bygma á árinu 2011 nemur um 630 milljónum evra, sem nemur um 100 milljörðum íslenskra króna.
» Bygma var stofnað fyrir tæpum 60 árum og hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi.