Sigrún Rósa Björnsdóttir
sigrunrosa@mbl.is
Meirihluti utanríkismálanefndar, sem í gær samanstóð af stjórnarandstöðu, Framsóknar- og Sjálfstæðismönnum, ásamt þingmanni Vinstri hreyfingarinnar – Græns framboðs, samþykkti í gærkvöldi bókun um að beina því til ríkisstjórnarinnar að fyrirsvar í dómsmálum og öðru sem snúi að Icesave gagnvart ESA og EFTA-dómstólnum yrði áfram á hendi Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Undir bókunina skrifuðu fimm af níu nefndarmönnum, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson, Framsóknarflokki, Ólöf Nordal og Ragnheiður Elín Árnadóttir Sjálfstæðisflokki og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir Vinstri grænum. Í bókuninni er vísað til fordæma um að fagráðherra fari með fyrirsvar í tilteknum milliríkjamálum.
„Við hin lögðum áherslu á að það væri rétt og í samræmi við stjórnskipunina að hið formlega fyrirsvar væri á hendi utanríkisráðherra,“ segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar, um bókun stjórnarþingmanna. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingar, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, studdi þá bókun en getur sem slík ekki staðið að afgreiðslum nefndarinnar. Árni Þór segir ákvörðunarvaldið um forsvarið ekki á forræði nefndarinnar. Báðar bókanir leggi áherslu á samráð á milli ráðuneytanna um það sem málið varðar og einnig við utanríkismálanefnd. Hann hafi jafnframt lagt það til í sinni bókun að utanríkisráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra komi fljótlega fyrir nefndina til að fjalla um málsmeðferð og málsvörn Íslands í málinu.
FORSVAR Í ICESAVE