Hugmyndaflugið virðist ekki vera alltof ríkt hjá teiknimyndadeild fyrirtækisins DreamWorks. Í stað þess að leita nýrra hugmynda og persóna fyrir jólateiknimyndina þetta árið veðja menn á persónu, eða öllu heldur dýr, úr Shrek-teiknimyndunum, Stígvélaða köttinn. Köttinn fengu höfundar Shrek að láni úr frönsku 17. aldar ævintýri og í Shrek-myndinni fyrstu léku DreamWorks-menn sér listilega með hin ýmsu ævintýri og persónur þeirra. Shrek-myndin fyrsta reyndist fyrirtækinu gullgæs og var ákveðið að hún skyldi verpa áfram, framhaldsmyndir gerðar um tröllið sem urðu sífellt lakari, ferskleikinn sem einkenndi fyrstu myndina á bak og burt. Kvikunin (e. animation) þó alltaf góð og vandað til verka, en skemmtigildið öllu minna og það á einnig við um Stígvélaða köttinn, e.k. kattarútgáfu af Zorro og klisjukenndum latínóelskhuga. Kisi er sverðfimur og tungulipur, grín sem er margendurtekið og á vegi hans verður meistaraþjófur, læðan Kittý mjúkloppa. Kisi fréttir af því að morðóðir útlagar, Jack og Jill, hafi komist yfir galdrabaunir en af þeim á að spretta mikið baunagras til himins og að höll mikilli og í þeirri höll leynist gæs sem verpir gulleggjum. Hér er s.s. ævintýrið um Jóa og baunagrasið fengið að láni. Kisi hittir fyrir uppeldisbróður sinn af munaðarleysingjahæli, eggið Alexander Eggert Egg (Humpty Dumpty hét hann í enskri barnagælu) en lítill bræðrakærleikur er með þeim þar sem eggið sveik kisann fyrir margt löngu, gerði hann meðsekan um glæp. Kisi var gerður útlægur úr heimaþorpi sínu og egginu stungið í steininn. Egg og kisi slíðra sverðin og ræna baununum ásamt Kittý, sá þeim og upp sprettur baunagrasið góða. Þau stela bæði gulleggjum og gullgæsarunga og halda fljúgandi aftur til jarðar með góssið. Kisurnar og eggið eru nú í bráðri lífshættu, með útlagana á hælunum og risagullgæs. En ekki er allt sem sýnist.
Stígvélaði kötturinn á sín fyndnu augnablik og kemst einna helst á flug þegar spennan magnast undir lokin og gullgæsin ógurlega ræðst inn í lítið þorp, líkt og Godzilla á Tókýó forðum. Myndin er hins vegar langdregin á köflum, í upprifjunum kattarins þá sérstaklega og sagan ekki nógu lipurlega flutt eða fyndin. Fjör færist fyrst í leikinn þegar þríeykið kemur höndum (og loppum) á baunirnar en þá er langt liðið á myndina. Fullmargir brandarar eru ætlaðir fullorðnum, t.d. þeir sem snúa að bólfimi kattarins og kyntöfrum og nær hefði verið að höfða frekar til yngstu áhorfenda. Stígvélaði kötturinn er sæmileg afþreying en fellur fljótt í gleymskunnar dá.
Helgi Snær Sigurðsson