Atvinnuleysið hefur í reynd ekki minnkað, að því er fram kemur í útreikningum Alþýðusambands Íslands, sem birtir eru í fréttabréfi ASÍ, sem kom út í gær.

Atvinnuleysið hefur í reynd ekki minnkað, að því er fram kemur í útreikningum Alþýðusambands Íslands, sem birtir eru í fréttabréfi ASÍ, sem kom út í gær. Þar er velt upp spurningum um hvort skráð atvinnuleysi, sem hefur minnkað hægt og bítandi frá því á fyrri hluta seinasta árs, gefi rétt mynd af fjölda þeirra sem eru ekki á vinnumarkaðinum.

Í greininni sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, skrifar er mið tekið af upplýsingum Hagstofu Íslands og kemur fram að fjöldi starfa sveiflast mikið milli ársfjórðunga. Samhliða fækkun starfa fækkaði fólki á vinnumarkaði samfellt frá öðrum ársfjórðungi 2010 til fyrsta ársfjórðungs í ár og höfðu þá aldrei verið færri á vinnumarkaði frá því í ársbyrjun 2007. „Samkvæmt þessu virðist botninum hafa verið náð í ársbyrjun 2011 og að nú sé heldur farið að rofa til með fjölda starfa,“ segir í greininni.

Þjóðinni heldur áfram að fjölga en atvinnuþátttakan minnkar

Bent er á að þjóðinni heldur áfram að fjölga þrátt fyrir bágt ástand á vinnumarkaði. Ef stærð vinnumarkaðarins er borin saman við íbúafjölda kemur í ljós að atvinnuþátttakan hefur minnkað á seinustu fimm árum sem nemur um 3% af vinnuaflinu. „Þetta þýðir að um 5.000 manns hafa hætt þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands, farið í nám, hætt að vinna með námi, heimavinnandi o.s.frv.,“ segir þar ennfremur.

Í grein Gylfa er einnig fjallað um tölur um búferlaflutninga en eins og fram hefur komið er fjöldi brottfluttra umfram aðflutta undanfarin þrjú ár samtals um 4.700 manns eða 2,6% af vinnuaflinu.

Hann tekur saman upplýsingar um raunatvinnuleysið sl. 3 ár. Ber saman fækkun skráðra atvinnulausra, samdrátt í atvinnuþátttöku Íslendinga frá 2008 og uppsafnaðan fjölda brottfluttra umfram aðflutta Íslendinga frá 2008. Í ljós kemur „að á móti fækkun þeirra sem eru skráðir atvinnulausir hjá Vinnumálastofnun hefur fjöldi þeirra sem yfirgefið hafa landið vaxið umtalsvert. Ef við bætum þeim við sem hættu þátttöku á vinnumarkaði nemur þessi fjöldi samtals ríflega 21.000 manns eða tæplega 12% af vinnuaflinu. Það sem er einnig athyglisvert er, að þessi fjöldi hefur ekkert minnkað á þessu tímabili.“

Gylfi segir því enga sérstaka ástæðu til bjartsýni um horfur á vinnumarkaði og segir mikilvægt að stjórnvöld geri sér grein fyrir því að þrátt fyrir mikinn og jákvæðan árangur í glímunni við ríkisfjármálin, sem hafi ekki verið sársaukalaus, verði að færa áherslu efnahagsmálanna yfir á fjárfestingar og fjölgun starfa. omfr@mbl.is

Sveiflur
» Fjöldi starfandi á vinnumarkaði tók dýfu í árslok 2010 og ársbyrjun 2011 en störf á þriðja ársfjórðungi 2011 virðast heldur fleiri en á sama tíma á síðasta ári.
» 2.500 manns fleiri en aðfluttir fluttu frá landinu árið 2009, um 1.800 árið 2010 og ef fram heldur sem horfir munu tæplega 1.500 manns fleiri hafa yfirgefið landið á þessu ári.