„Ég var með stóra og fína veislu þegar ég varð sextug en þá bauð ég öllum vinum mínum og stórfjölskyldunni og því ákvað ég að gefa þeim frí í ár og halda frekar vel upp á sjötugsafmælið mitt eftir fimm ár,“ segir Sunna Borg.
„Ég var með stóra og fína veislu þegar ég varð sextug en þá bauð ég öllum vinum mínum og stórfjölskyldunni og því ákvað ég að gefa þeim frí í ár og halda frekar vel upp á sjötugsafmælið mitt eftir fimm ár,“ segir Sunna Borg. Hún ætlar að eyða afmælisdeginum í faðmi fjölskyldunnar og gera sér glaðan dag í miðri jólaösinni enda nóg að gera framundan við undirbúning jólanna og ekki síst vegna þess að eiginmaður Sunnu, Þengill Valdimarsson, á afmæli 25. desember en hann verður sextugur þá og því algjört jólabarn að sögn Sunnu. Hún segist þó ekki ætla að stressa sig yfir jólunum enda nýkomin af tíu daga Draumadögum í desember hjá heilsustofnuninni í Hveragerði. „Ég gaf sjálfri mér þetta í afmælis- og jólagjöf. Þetta voru tíu dásamlegir dagar þar sem ég fór í nálastungu, sjúkranudd, heilsuböð, leirböð og margt fleira. Síðan hitti ég á marga gamla vini mína sem ég hef ekki séð í fjölda ára og eignaðist líka marga góða nýja vini og sótti marga skemmtilega og fróðlega fyrirlestra um allt mögulegt sem tengist heilsunni. Það má segja að ég hafi komið út nokkrum árum yngri en ég fór inn og það aðeins á tíu dögum.“