Baksvið
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Orkusölusamningur HS Orku og Norðuráls vegna reksturs álvers í Helguvík er í fullu gildi og ber HS Orku að afhenda umsamda orku. Orkan hefur hins vegar ekki verið beisluð og ýmis ljón hafa verið í vegi þess. Fulltrúar fyrirtækjanna þurfa að stilla saman tímaáætlanir sínar og semja um orkuverð.
Norðurál samdi á árinu 2007 við HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur um orkusölu vegna byggingar álvers í Helguvík. Framkvæmdir hófust. Ýmislegt hefur gengið á síðan. Bankahrunið setti tímaáætlanir úr skorðum. Þá hafa orðið áherslubreytingar hjá HS Orku eftir eigendaskipti.
Ýmsir fyrirvarar voru í orkusölusamningunum, meðal annars um að nauðsynleg leyfi fengjust fyrir virkjunum og um forsendur orkuverðs. Leyfisferlið hefur gengið hægt hjá HS Orku. Þannig átti fyrirtækið í stappi með að fá virkjanaleyfi til stækkunar Reykjanesvirkjunar. Það er komið í gegn en ekki fyrir jafnmikilli framleiðslu og fyrirtækið vildi. Þá er ekki búið að gera breytingar á skipulagi í Eldvörpum og Krísuvík sem er forsenda frekari rannsókna og virkjana.
Þegar ekki tókust samningar við HS Orku um afhendingu orkunnar vísaði Norðurál málinu til gerðardóms í júlí 2010 til að fá skorið úr um gildi samningsins sem HS Orka hélt fram að væri fallinn úr gildi.
Niðurstaðan er sú að samningurinn sé í fullu gildi og HS Orku beri að afhenda umsamda orku. Gerðardómurinn taldi þó ekki að búið væri að uppfylla skilyrði fyrir afhendingunni og féllst ekki á að úrskurða Norðuráli skaðabætur vegna vanefnda HS Orku. Þá eru í fullu gildi þeir fyrirvarar sem voru í orkusölusamningnum, meðal annars um að orkuverð þyrfti að tryggja HS Orku umsamda arðsemi af fjárfestingu í virkjunum og rekstri þeirra.
Stjórnendur fyrirtækjanna þurfa nú að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í upphafi síðasta árs, stilla saman áætlanir sínar og ganga frá lausum endum, á þeim grundvelli sem úrskurður gerðardómsins leggur.
Fleiri lausir endar í málinu
Forsvarsmenn fyrirtækjanna geta engar tímasetningar gefið upp um framhaldið. Fleiri lausir endar eru í málinu. Þannig er gert ráð fyrir orku frá Hverahlíðarvirkjun en Orkuveita Reykjavíkur á erfitt með að fjármagna þá framkvæmd og telur samninginn um Helguvík fallinn úr gildi. Þótt niðurstaða gerðardómsins snúi ekki að OR hlýtur hann að vera fordæmisgefandi við úrlausn mála þar, eins og á Suðurnesjum.