Gunnar Már Guðmundsson
Gunnar Már Guðmundsson
Fótbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.

Fótbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ég hef ekki skrifað undir samning ennþá en eins og staðan er núna þá eru yfir níutíu prósent líkur á að ég gangi til liðs við ÍBV á næstu dögum,“ sagði knattspyrnumaðurinn Gunnar Már Guðmundsson í samtali við Morgunblaðið í gær. Gunnar, sem var leigður til Þórs á Akureyri frá FH á síðustu leiktíð Pepsi-deildarinnar mun hafa kvatt félaga sína í FH síðdegis í gær þar sem hann er leið til ÍBV.

Gunnar Már á eitt ár eftir af samningi sínum við FH en ÍBV mun kaupa hann undan þeim samningi og hlaupi ekki snurða á þráðinn þá skrifar Gunnar Már undir þriggja ára samning við ÍBV fyrir jólin.

Gunnar Már er 28 ára gamall miðvallarleikmaður sem á að baki 75 leiki í efstu deild sem hann hefur skorað 20 mörk í. Hann lék lengst af með Fjölni í Grafarvogi, gekk til liðs við FH fyrir leiktíðina 2010 og tók þátt í 12 leikjum liðsins í Pepsi-deildinni það sumar. Á síðasta keppnistímabili tók hann þátt í 20 leikjum Þórsara í Pepsi-deildinni og skoraði eitt mark.

Gunnar Már sagði í gærkvöldi að væntanleg vistaskipti sín til ÍBV hefðu ekki átt sér langan aðdraganda. „Það er spennandi að fara til Eyja og leika með ÍBV, á því leikur enginn vafi,“ sagði Gunnar Már ennfremur en hann er mikill og öflugur leikmaður sem svo sannarlega getur reynst Eyjaliðinu öflugur liðsauki en nokkrar breytingar eru fyrirsjáanlegar á liði ÍBV fyrir næsta keppnistímabil.