Nikkei-hlutabréfavísitalan lækkaði um 1,26% í kauphöllinni í Tókýó og hefur ekki verið lægri í þrjár vikur við lokun í gærmorgun (fyrrinótt að íslenskum tíma).

Nikkei-hlutabréfavísitalan lækkaði um 1,26% í kauphöllinni í Tókýó og hefur ekki verið lægri í þrjár vikur við lokun í gærmorgun (fyrrinótt að íslenskum tíma).

Hafði fráfall leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-Il áhrif á markaði í Asíu í um leið og fréttin spurðist út um dauða hans.

Kospi-vísitalan í Suður-Kóreu lækkaði um 5% þegar norðurkóreski ríkisfjölmiðillinn tilkynnti dauða Kim Jong-Il, en hækkaði aðeins á ný þegar leið á daginn. Nam lækkun dagsins 3,43%.

Hlutabréf Sony lækkuðu um rúm 3% og Nintendo lækkaði um 2,85%. Hins vegar hækkaði Nissan Motor um rúm 2%.

Á vefsíðu BBC í gær kom fram að suðurkóreski gjaldmiðillinn, won, hafði veikst um 1,6% og að Seðlabanki Kóreu undirbyggi nú neyðarfund vegna andláts norðurkóreska leiðtogans.

Bae Sung-Yong, greinandi hjá Hyundai Securities sagði við BBC: „Þetta er áfall fyrir markaðinn, til skamms tíma litið og í ljósi fyrri reynslu (andlát föður Kim Jong-Il, Kim Il Sung) spái ég því að neikvæð áhrif á markaði, vari í tvo til þrjá daga.“

Aðrir greinendur sem BBC ræddi við voru ekki jafn bjartsýnir og töldu allt eins líklegt að neikvæð áhrif myndu vara lengur.

Roger Tan hjá SIAS Research í Singapore sagði til að mynda að það væri enn spurning hver tæki við af Kim Jong-Il og valdabarátta í Norður-Kóreu myndi hafa slæm áhrif á markaði.

Markaðir í Asíu

» Hlutabréf lækkuðu um 3,9% í Suður-Kóreu.
» Hlutabréf lækkuðu um 1,3% í Japan.
» Hlutabréf lækkuðu um 1,2% í Hong Kong.
» Hlutabréf Sony lækkuðu um 3% og Nintendo um 2,85%.